21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2724)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Frsm. meiri hl. (Pjetur Ottesen):

Jeg þar hjer ekki að taka margt fram, því háttv. 2. þm. N.-M. (B. H.) hefir að mestu tekið af mjer ómakið í því efni. Það hefir nú farið hjer sem oftar, þegar tveir deila, að þeim finnast ástæður mótpartsins veigalitlar, og sannast hjer sem oftar hið fornkveðna, að „hverjum þykir sinn fugl fagur.“ Þannig hefir það að minsta kosti reynst hjá hv. flm. þessa frv. og frsm, minni hl., hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). (S. St: Er það ekki svipað hjá meiri hlutanum líka?).

Jeg hefi fulla ástæðu til að halda því fram, að prestar, margir að minsta kosti, hafi þann skilning, að barnafræðslunni sje af þeim ljett með fræðslulögunum. Og afskifti sumra presta af þeim málum ekki önnur en þau, er jeg hefi nefnt, nema þá að þeir sitja í fræðslunefnd. Og það munu dæmi þess, að þessi skilningur hafi verið teygður svo langt, að húsvitjanir hafi verið vanræktar upp á síðkastið. Prestar hafa því yfirleitt litið svo á, þótt háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sje, að því er marka má, á annari skoðun, að þessu starfi hafi verið af þeim ljett með fræðslulögunum. Jeg held því þess vegna fram, að rök meiri hl. allshn. í þessu efni, sem styðjast við reynsluna sjálfa, sjeu fullgild rök.

Meðhaldsmenn frv. hafa heldur ekki verið almennilega á eitt sáttir. Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði, að þetta væri fjölmennasta prestakall landsins, en háttv 4. þm. Reykv. (M. J.), að önnur prestaköll muni jafnfjölmenn og jafnerfið. — Hitt er vitanlegt, ef þetta prestakall er borið saman við önnur prestaköll á Vestfjörðum, að þá sje þar fjölmennast, því þar munu vera prestaköll, sem ekki eru í nema rúmlega 250 manns, og yfirleitt eru prestaköllin þar, að Ísafjarðarprestakallinu undanskildu, mjög fólksfá.

Því hefir verið haldið hjer fram, að meiri hl. allshn. hafi vefengt það, að rjett væri skýrt frá erfiðleikunum þar vestra. Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) sagði, að þeir flm. frv. mundu ekki hafa gengið langt frá sannleikanum í lýsingum sínum. En af þeim orðum hans mátti skilja, að þeir hefðu þó gengið feti framar því, sem satt var og rjett, og er það gott að fá játningu háttv. þm. (J. A.) um þetta. Jeg hefi fyrir heimildarmann um þessi efni prest, sem þjónað hefir þessu prestakalli fulla 3 tugi ára, og eru aðeins örfá ár síðan hann ljet af embætti.

Þessum manni er því að sjálfsögðu allra manna kunnugast um, hvernig þarna er ástatt, og mun hann alls ekki telja það ofætlun áhugasömum og duglegum presti að sinna embættinu svo, að söfnuðirnir megi vel við una. Mjer finst fullkomlega mega byggja á því, sem þessi trúverðugi heiðursmaður segir um þetta, þó háttv. frsm. minni hl. (S. St.) og öðrum, sem nokkuð eru kunnugir á þessum stöðum, vaxi þetta svo mjög í augum.

Þá vildi háttv. frsm. minni hl. (S. St.) vefengja þær athugasemdir, sem jeg gerði við kostnað þann, er hann kvað prestinn hafa við að komast á annexíuna.

Þar sem það, sem hann sagði um það efni, voru einungis endurtekningar á því, sem hann hefir áður haldið fram um það, sje jeg ekki ástæðu til að kljást meira við hann um það atriði. Það stendur óhrakið, að það er ekki nema í örfáum tilfellum, ef það kemur þá fyrir, að kostnaðurinn við það fari nokkuð nærri því, sem hann hefir nefnt.

Hvað það snertir, að það geti komið fyrir, að presturinn komist ekki á annexíuna, þá er það ekkert einsdæmi þar. Skyldi það ekki vera æði oft, sem prestar í viðlendum prestaköllum í sveitum ekki komast á annexíurnar á messudögum að vetrinum til? Jeg hygg, að svo sje.

Eins er það auðvitað fyrir þeim prestum, sem þurfa að fara sjóveg á kirkjur sínar; það getur auðvitað komið fyrir, að þeir komist ekki leiðar sinnar, og er það svo að sjálfsögðu víðar en á þessum stað.

Hvort sem það er af því, að háttv. frsm. minni hl. (S. St.) hefir ekki verið annarsstaðar betur settur eða ekki, þá hefir hann, svo sem kunnugt er, alla sína prestsskapartíð vestur þar búið í eyju og því æfinlega orðið að sæta sjóveðri á kirkjur sínar. Jeg hefi nú ekkert heyrt undan því kvartað, eða orðið þess var, að sóknarbörn hans hafi gert neinn úlfaþyt út af því, þó hann hafi eðlilega oft tepst frá því að komast á kirkjurnar og ekki getað starfað eins mikið og að jafnaði meðal safnaða sinna og hann hefði getað gert, ef hann væri betur settur. Mjer kemur það því óneitanlega dálítið einkennilega fyrir, hvað hv. frsm. (S. St.) gerir mikið úr þeirri nauðsyn, að prestaköll sjeu ekki stærri en það, að presturinn geti næstum því daglega umgengist söfnuðina. Því undarlegra þykir mjer þetta, þar sem hv. frsm. (S. St.) hefir slegið svo slöku við prestsskapinn í þeim söfnuðum, sem honum er trúað fyrir, að hann hefir setið á þingi um 2 tugi ára. Jeg segi slegið slöku við prestsskapinn, af því að mjer er ekki kunnugt um, að hann hafi, í fjarveru sinni, nokkum tíma sjeð söfnuðunum fyrir annari sálusorg en þeirri, sem nágrannaprestar hans hafa miðlað þeim fyrir hann. Þetta hefði hann vitanlega alls ekki gert, ef hann hefði ekki vel getað varið það fyrir guði og samvisku sinni.

Þetta sannar, að það er einmitt álit hv. frsm. (S. St.), að prestar geti haft miklu víðari verkahring en þeir hafa víða nú, og erum við þar alveg sammála.

Þá talaði hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) um, að það væri hæpið að treysta á guðfræðirit. (S. St.: Tímarit.). Jeg nefndi aldrei annað en guðfræðirit. Og taldi hann, að það væri svo margt í þeim, sem hann vildi ekki láta, að minsta kosti sín sóknarbörn, lesa. Jeg veit ekki, hvað hann meinar með þessu, hafi það ekki verið hin svo kallaða nýja guðfræði, sem vitanlegt er að honum fellur alls ekki í geð. Ef þessi skifting verður framkvæmd, þá getur það orðið tvíeggjað sverð fyrir þennan nýja söfnuð, frá sjónarmiði hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Hann hefir enga tryggingu fyrir því, að sá prestur, sem kosinn yrði í þetta embætti, yrði ekki nýguðfræðingur. Það væru einmitt miklu meiri líkur til, að það færi svo, því þessi trúmálastefna er að ryðja sjer til rúms, hjá yngri guðfræðingum að minsta kosti. Það gæti því svo farið, að sá prestur, sem þangað kæmi, prjedikaði söfnuðinum það, sem hv. frsm. (S. St.) síst vildi og hann teldi söfnuðinum miður uppbyggilegt og má ske til skaðsemdar. — Færi nú svona, mundi hv. frsm. (S. St.) sáriðrast eftir að vera hvatamaður þessarar skiftingar og naga sig í handarbökin fyrir að eiga sök á, að svona hefði tekist til.

Þó háttv. frsm. (S. St.) geri lítið úr þeim góðu og siðbætandi áhrifum, sem það hafi á menn að lesa guðfræðirit, þá er það vitanlegt, að trúhneigðir menn úti um landið færa sjer í nyt lestur slíkra bóka, og það er margt í þeim bókum, sem siður en svo stendur að baki því, sem sumir prestar að minsta kosti bjóða söfnuðum sínum.

Háttv. frsm. (S. St.) sagði, að dýrtíðaruppbótin mundi smálækka og hverfa að öllu með tímanum. Það er vonandi, að þetta fari svo. En þegar hann gerir samanburð á kostnaðinum við ferðir prestsins nú við launin, þá verður hann að reikna dýrtíðaruppbótina með laununum, annað er rangt, því jafnframt því sem dýrtíðaruppbótin minkar, minkar þessi kostnaður að sjálfsögðu, sem hann talar svo mikið um.

Það er satt, að meðan sá prestur, er jeg nefndi áðan, þjónaði vestur þar, að þá hefir kostnaðurinn verið minni. Þá er líka þess að gæta, að launin voru miklu minni þá en þau eru nú.

Þó svo kunni að vera, að prestur sá, sem nú er á Ísafirði, hafi í hyggju að sækja um prestsembætti í sveit, sem nú er laust hjer austanfjalls, þá er það engin sönnun þess, að starfið sje ofætlun einum presti.

Margir líta nú til hægðarinnar, taka því, ef þeim býðst annað, sem er þeim betur að skapi; það fer alt eftir upplagi mannsins. Svo er á það að lita, að annar þráir að vera í sveit, hinn vill vera í kaupstað, en fyrir sumum blandast þetta saman, og það er ekki nema eðlilegt, að menn leiti að sjálfum sjer, ef svo mætti að orði kveða, og reyni fyrir sjer þar til þeir hafa fundið það, er hugur þeirra stendur til.

Þó þessi prestur kunni að hafa í hyggju að grípa þetta tækifæri, þá getur það verið af alt öðrum ástæðum en þeim, er hjer hefir verið haldið fram.

Það, sem háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) sagði, var að mestu endurtekning á því, sem háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hafði sagt. í útreikningum háttv. þm., að þetta yrðu engin útgjöld fyrir ríkissjóð, þó þetta embætti yrði stofnað, eða í hæsta lagi sem svaraði 1500 kr., þá miðaði hann við það, að enginn prestur mundi fást til að vera á Ísafirði, nema hann fengi 2000 kr. erfiðleikauppbót, og svo við það, að hækkun sú á sóknargjöldum, sem stjórnin hefir lagt fyrir þingið, næði fram að ganga. Það er nógu snemt að miða við þessa sóknargjaldahækkun þegar hún er orðin að lögum, sem jeg hygg að tæplega verði á þessu þingi, og líka er það nógu snemt að staðhæfa, að enginn fáist til að vera prestur á Ísafirði án þessarar erfiðleikauppbótar, þegar það sýnir sig, að spá þingmannsins rætist. Þegar embætti þetta var síðast laust, voru nógir um boðið.

Þetta er bara fyrirsláttur og ekkert annað.

Þó að það megi segja, að þetta og þetta embætti út af fyrir sig muni ekki sliga landssjóðinn, en þegar þess er gætt, að á hverju einasta ári er bætt nýjum embættum við, þá verður þetta skammvinn ástæða, að þetta eina hafi ekki mikil áhrif, en þegar þau eru komin öll í eina heild, til viðbótar því, sem fyrir er, þá sjer þess óneitanlega staði í útgjöldum ríkissjóðs.

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) kom fram í þessu máli eins og sáttasemjari; það er auðvitað gott og virðingarvert og ekki síður vel við eigandi, þar sem hann hefir það sem af er þinginu lagt það eitt til mála, sem trauðla má telja að hafi farið í þá stefnu. Þetta bendir til þess, að háttv. þm. (Gunn. S.) hafi tekið sinnaskiftum og ætli hjer eftir að stuðla að sátt og samlyndi, og er það vel farið.

Út af ummælum háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) vil jeg leiðrjetta það, að samanburður minn á Reykjavík og Ísafirði átti aðeins við mannfjölda þeirra safnaða, og þetta tók jeg fram; það var þess vegna alveg óþarfi fyrir hann að vera að teygja lopann um þetta svo sem hann gerði.

Hinu þarf ekki beint að undrast yfir, þó honum vaxi nú í augum erfiðleikarnir vestur þar, þegar hann ber þá saman við það starf, sem háskólakennarar hafa á hendi, ef það er satt, sem sagt er, að þeir kenni ekki nema eina klukkustund á dag 3/4 hluta ársins, en hafi hinn tímann alveg frí.