29.03.1921
Neðri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (2737)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Jón Auðunn Jónsson:

Herra forseti! Jeg skal ekki lengja umr. með því að taka upp aftur neitt af því, sem fram kom við 2. umr. En með skírskotun til ummæla minna þá, um að þá færi fram úrslitaatkvæðagreiðsla um málið, vænti jeg þess, að frv. nái nú fram að ganga, og að sömu menn, sem greiddu því atkv. til 3. umr., greiði því einnig atkv. nú, en á móti dagskránni. En þetta er af því sprottið, að núverandi prestur hafði ákveðið að sækja burtu frá Ísafirði, ef prestakallinu yrði ekki skift, og sækja um annað brauð, sem þá var laust, en umsóknarfrestur er nú útrunninn, og hann sótti ekki, af því að við símuðum honum, að málið mundi ná fram að ganga hjer í hv. deild. Um erfiðleikauppbótina skal jeg aðeins geta þess, að til hennar kemur ekki. Presturinn vill ekki og getur ekki þjónað kallinu óskiftu, þó að launin hækki eitthvað, enda mundu sóknarmenn ekki telja embættinu þjónað á viðunandi hátt, ef skifting prestakallsins næði ekki fram að ganga.