08.04.1921
Neðri deild: 38. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2758)

96. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta er svo ofureinfalt mál, að það ætti ekki að þurfa langa framsöguræðu til að skýra það. Hjer er aðeins farið fram á að bæta úr misrjetti, sem höfuðstaður landsins hefir orðið að þola um langan tíma. Að vísu var lítils háttar úr þessu bætt á síðasta þingi, en sú rjettarbót náði skamt, og nú hefi jeg viljað gefa hinu háa Alþingi tækifæri til þess að sýna höfuðstaðnum fullkomið rjettlæti og láta hann fá þá þingmannatölu, sem honum að rjettu lagi ber, og það því fremur, sem þurft hefir lengi eftir því að bíða. Jeg veit, að það vakir fyrir sumum háttv. þm., eins og fram kom í fyrra, um þetta mál, að það þurfi gagngerða endurskoðun á kjördæmaskipun landsins. Jeg hefi ekkert á móti þeirri endurskoðun, og í raun rjettri hefði sú endurskoðun nú átt að liggja fyrir þinginu frá hæstv. stjórn, samkv. þingsályktun síðasta Alþingis. En jeg sje ekki, að sú endurskoðun þyrfti að tefjast nokkuð eða verða á annan veg, þó þetta frv. yrði að lögum. Jeg geri ráð fyrir, að tala þm. yrði að mestu leyti, eins og verið hefir, miðuð við mannfjölda eða kjósendatölu, og þótt Reykjavík væri þá búin árinu fyr að fá þá þm.tölu, sem henni ber, þá væri það ekki nema sanngjörn uppbót fyrir það, hve lengi hún hefir þurft eftir því að bíða. í ástæðum frv. þessa eru færðar sterkar sannanir fyrir því, að þessi fjölgun þm. fyrir Reykjavík hafi við fylstu rök að styðjast, samkvæmt þeirri venju, sem virðist hafa vakað fyrir löggjafanum, að miða tölu þm. við fólksfjölda.

Þannig hefir kaupstöðum landsins verið veittur rjettur til þess að verða kjördæmi út af fyrir sig, þegar þeir hafa náð þeirri íbúatölu, sem þá hefir verið meðaltal í öðrum kjördæmum landsins.

Jeg neita því ekki, að einstöku kjördæmi landsins eiga við dálítið misrjetti að búa í þessu efni. Mætti þar til nefna Hafnarfjörð, sem nú kýs með Gullbringu- og Kjósarsýslu, en ætti að rjettu lagi að fá sjerstakan þm., móts við önnur kjördæmi, og það er síður en svo, að jeg hafi á móti því, og skyldi vera fyrstur manna til þess að ljá því liðsyrði og fylgi að gera Hafnarfjörð að sjerstöku kjördæmi.

Stefna hins háa Alþingis í þessu hefir einmitt verið sú, sem frv. þetta fer fram á, og það mætti telja næsta undarlegt, ef það nú breytti út af þeirri stefnu, þar sem hún sýnist líka bygð á fullri sanngirni, og því undarlegra virðist það, ef sú stefnubreyting yrði nú í þessu, þar sem höfuðstaður landsins á í hlut.

Auk þingmannafjölgunar er í frv. farið fram á nokkrar umbætur á kosningalögum Reykjavíkur. Undanfarið hafa altaf komið umkvartanir við kosningar hjer í bæ, og nú síðast við kosningarnar til yfirstandandi þings, og eins og hv. þm. mun reka minni til, var í fyrra ónýtt kosning þm. fyrir Reykjavík vegna galla. Þessir gallar hafa leitt af því, að Reykjavík er vaxin upp úr kosningalögunum, sem samin hafa verið fyrir landið í heild og eiga í mörgu illa við Reykjavík. Úr þessu á frv. að bæta, og þó eitthvað sjeu skiftar skoðanir um þingmannatölu þá, sem 1. gr. frv. nefnir, þá get jeg ekki skilið, að nokkur hv. þm. vilji leggjast á móti þessu. — Reyndar trúi jeg því ekki, að hv. þm. vilji ekki veita Reykjavík rjetta þingmannatölu, að jeg ekki nefni það, sem skotið er að mjer, að sumir hv. þm. ætli að fella frv. frá 2. umr. Þó ekki væri nema vegna umbótanna á kosningalögunum, ætti frv. að sjálfsögðu að komast fram.

það er óhugsandi, að kosningar geti farið hjer vel fram, ef gömlu lögin eru óbreytt.

Vegna þess, hve kjósendur eru margir hjer, er alt of seint að láta kosningar byrja kl. 12, því þá verða þær ávalt að standa fram á nótt. Reykjavík þarf því að fá heimild til þess að byrja kosningar fyrir hádegi, svo kosningar geti gengið nægilega fljótt fyrir sig. Í þriðju grein er farið fram á að skifta bænum í kjördeildir eftir bæjarhlutum eða stafrófsröð. Þetta heimildarákvæði er svo nauðsynlegt, til þess að kosningar geti gengið sem fljótast, eins og til hagar í Reykjavík, að þm. geta ekki haft neitt við það að athuga.

Mjer hafði dottið í hug að vísa málinu til allsherjarnefndar, en með því að henni var áðan fengið flókið mál til íhugunar, sem hlýtur að taka hana langan tíma, þá datt mjer í hug, hvort ekki mætti vísa því til einhverrar annarar nefndar. Jeg veit raunar ekki vel, í hverja nefnd það ætti þá að fara. Helst hefi jeg hugsað mjer mentamálanefnd, því sú nefnd hefir lítið að gera, en jeg vildi helst vísa því í nefnd, sem afgr. það fljótt. Jeg legg að vísu ekkert kapp á þetta, en ef hægt er fyrir þingsköpunum, sem hæstv. forseti mun segja til um, þá þætti mjer það best. (Forseti: Sjálfsagt ekkert því til fyrirstöðu.). Jeg sje þá ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en vona, að hv. deild farnist vel við frv.