09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (2768)

83. mál, stofnun dócentsembættis

Jón Þorláksson:

Brtt. á þskj. 262 er ekki fram komin af því, að mjer sje ant um þetta frv., heldur eingöngu af því, að mjer var tjáð, að þessi maður hefði fengið loforð fyrir stöðunni hjá stjórn og þingi, og fer brtt. fram á, að það loforð sje efnt, en ekki lengra farið.

Jeg hafði vænst þess, að frá því hefði verið skýrt við 1. umr. málsins, hvernig loforð þetta var til komið, en það var ekki gert þá. Með brtt. er fyrir það girt, að stofnað sje fast embætti, sem veitt verði öðrum, ef sá, er nú gegnir því, fellur frá eða lætur af starfinu.