09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2776)

83. mál, stofnun dócentsembættis

Eiríkur Einarsson:

Jeg vildi geta þess um þá ákvörðun mentamálanefndar að flytja þetta frv., að jeg og fleiri nefndarmenn gerðu það með skilorði og höfum óbundnar hendur. Þetta kemur að vísu óbeinlínis fram í greinargerð frv., en þó vildi jeg taka þetta fram, til þess að fyrirbyggja allan misskilning.

En fyrst jeg stóð upp, leyfi jeg mjer að taka það fram, að jeg get ekki orðið með till. á þgskj. 262, og það af þeirri ástæðu, að ef rjett er að stofna þetta embætti, þá er það eingöngu af því, að svona lagað embætti er nauðsynlegt við háskólann, án tillits til þess, hvaða maður verður settur til að gegna því. Till. í þá átt, að binda embættið við nafn ákveðins manns, bendir um of í þá átt, að of mikið tillit sje tekið til persónunnar, en það hefir löngum viljað við brenna á Alþingi Íslendinga. Það er öðru nær en að jeg amist við þessum manni. dr. Alexander Jóhannessyni, og jeg vil ekkert draga úr því lofi, sem hann hefir fengið hjer, og það eflaust að verðleikum. En jeg álít, að ekki sje rjett að leggja persónulegan mælikvarða á slík mál sem þetta. það ber aðeins að líta á embættið, hvort það sje nauðsynlegt eða ekki, og eftir því á að samþ. það eða fella.

Hjer er haft að yfirvarpi, að verið sje, að styrkja norrænu, en ef það væri af heilindum mælt, mundi í embættið valinn sjerfræðingur í norrænu, en maðurinn, sem um er að ræða, er sjerfræðingur í þýskum fræðum, og þar er tekið af öfugum enda. Jeg vildi þess vegna helst, að þessi till. yrði tekin aftur eða feld, og hreinlega yrði greitt atkv. um það, hvort stofna ætti embættið eða ekki.