05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (2791)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skal ekki lengja umr. mikið, því hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) hefir tekið sumt af því fram, sem jeg vildi sagt hafa. Jeg get eigi varist að láta það í ljós, að mjer sýnist nál. allshn. vera hinn furðulegasti gripur. Fæ jeg eigi skilið, hvernig á að greina það í sundur, hverjir komist á vonarvöl fyrir sjálfráðar sakir og hverjir fyrir ósjálfráðar. Held jeg, að hjer sje um ekkert fullgilt mat að ræða, og nær er mjer að halda, að ef maður með lögfræðilegri þekkingu hefði átt setu í nefndinni, þá hefði hann minst setningarinnar alkunnu: In dubio pro reo, en eins og nefndin er nú skipuð, er það sjálfsagt til of mikils mælst að krefjast þess af henni, að hún hafi þessi almennu sannindi í huga. Annars sýnist mjer svo, sem þjóðfjelagið hafi full tök á þessum mönnum, því bæði er hægt að svifta þá fjárforræði og þvinga þá til vinnu eða synja þeim styrks, ef þeir þrjóskast við vinnu. Eitt er jeg þó þakklátur nefndinni fyrir, og það er að fella niður síðari liðinn, því eins og jeg mintist á við 1. umr. málsins, er hann endemisvitleysa.

Þá kem jeg að aldurstakmarkinu, og er jeg þar samdóma hv. 2. þm. Reykv (J. B.), að rjett sje áð lögleiða 21 árs aldur, og það hvort sem litið er á það frá íheldninnar eða frjálslyndisins sjónarmiði. Sje litið á það frá síðarnefnda sjónarmiðinu, þá mælir það með því, að rjettlætistilfinningin er yfirleitt næmari hjá ungum mönnum en gömlum, áhuginn og kappið er meira. Veit jeg, að sagt mun verða, að þeim sje hættara við gönuskeiðum en þeim eldri: má og vera, að það sje rjett, en þó sýnist nú svo, sem þeir eldri renni þau oft líka, og að minsta kosti sýndist þá eigi síður ástæða til að svifta menn kosningarrjetti, er þeir hefðu náð vissum aldri, og hætt orðið við elliglöpum hjá þeim. Enn er mjer það kunnugt, að yngri menn eru áhugasamir um kosningar og hafa þar oft unnið ósleitilega.

Frá sjónarmiði þess fyrnefnda, íheldninnar, mælir það með, að úr því að þeim er veitt fjárforræði 21 árs og þeir verða að bera útgjöld og skyldur, þá er eigi nema sjálfsagt, að þeir hafi og rjettinn.

Hv. frsm. (E. Þ.) vildi hafa stuttar umr. og taldi þetta ekki svo mikilsvarðandi mál, að það ætti að tefja fyrir öðrum þýðingarmeiri. Mjer sýnist nú málið eigi vera svo lítilvægt, þar sem um mannrjettindi er að ræða, og ættu þau mál ætið að vera þyngst á metunum.

Jeg er þakklátur hv. þm. Dala. (B. J.) fyrir brtt. hans. Og þó að svo fari, að þær verði eigi samþ. nú, þá verður þess skamt að bíða, að þær nái fram að ganga. Verði till. á þskj. 212 ekki samþ., mun jeg greiða atkv. till. á þskj. 86, því Reykjavík má eigi gjalda þess, þó að lítill áhugi kunni að vera fyrir máli þessu annarsstaðar á landinu, og því eigi þar búið að fá þessu sjálfsagða máli framgengt.