05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (2794)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Frsm. (Einar Þorgilsson):

Jeg þarf í rauninni ekki að standa upp, því enn hefir ekkert verið hrakið af því, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni, eða því, sem stendur í nál. Jeg vil samt minnast á nokkur atriði í ræðum þeirra hv. þm., er mælt hafa með frv.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) sagði, að hugtök nefndarinnar væru úrelt. Það væru leifar frá löngu liðnum tíma að vilja binda kosningarrjettinn við það skilyrði, að menn standi ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Þetta ákvæði var þó tekið upp í stjórnarskrána 1920, svo það er ekki eldra en síðan í fyrra. (M. J.: Var það fundið upp þá?). Það er sama, úr því það var endurnýjað þá.

Sami hv. þm. (M. J.) sagði, að ástæður nál. væru mjög leiðinlegar, og að ekki væri hægt að gera aðgreiningu á styrk þegunum. Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að rannsókn hefði verið gerð í þessu skyni í Reykjavík síðastl. vetur, og það hefði komið í ljós, að af 306 þiggjendum væru 300, sem ekki ættu að missa kosningarrjett, eftir áliti hv. allshn., en aðeins 6 ættu að missa hann, ef lögunum væri breytt að nefndarinnar vilja.

Jeg skal ekki rengja, að þetta geti verið rjett, en jeg þekki þó tvo þiggjendur, sem ekki ættu að hafa kosningarrjett eftir okkar skoðun, og þekki jeg þó fæsta þiggjendur í Reykjavíkurbæ.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) sagði bæði mögulegt og ómögulegt að fá svona aðgreiningu gerða. (Gunn. S.: Þm. (E. Þ.) hefir misheyrst.). Nei, það held jeg ekki. Jeg skal taka það fram, að nefndin hefir ekki sagt, að aðgreiningin sje möguleg. Hún segir aðeins, að hún vildi, að hún væri möguleg. Ef svo reynist, er sjálfsagt, að þeir, sem eru styrkþegar vegna heilsubrests og ómegðar, missi ekki rjettinn.

Hv. þm. Dala. (B. J.) lagði mikla áherslu á það ranglæti, sem hann sagði að stafaði af ástæðum nefndarinnar. Jeg skal ekki leggja dóm á það, hve vitur eða rjettsýnn dómari hann er. En jeg álít hann ekki sanngjarnari en suma aðra þm. Og jeg vil alls ekki líða honum að kveða upp þann dóm, að jeg sje ranglátari eða strangari dómari en hann. Eins og ljóst er af þeim ummælum, sem jeg hafði í upphafi fyrri ræðu minnar, þá álítur nefndin það ekki geta náð neinni átt, að þeir, sem ekki eru færir til að fara með fjárráð sín, geti ráðið fyrir aðra, en það er þeim ætlað að gera eftir frv. því, sem hjer er til umræðu.

Það er rætt mikið um, hvort aldurstakmarkið eigi að vera 21 eða 25 ár. Jeg skal viðurkenna það, að margir, sem eru á aldursskeiðinu frá 21–25 ára, eru svo þroskaðir og viti bornir að þeir ættu að vera færir til að greiða atkvæði við kosningar. En einhversstaðar verður að setja aldurstakmarkið, og ekki er hægt að neita því, að staðfesta og þroskun eykst á því aldursskeiði með reynslu lífsins. Jeg skal líka viðurkenna það, að margir, sem á þessu aldursskeiði eru, hafa mikil áhrif við kosningar og geta oft ráðið þar allmiklu, þó þeir ekki greiði atkv. En einmitt vegna þess, að þetta er svo, þá finst mjer, að jeg mundi ekki vera mótfallinn þessu, ef ekki væri önnur atriði í frv., sem jeg legg áherslu á að ekki nái fram að ganga.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) vítti mikið þá skoðun, að ekki ætti að eyða löngum tíma í þetta mál. Jeg álit það ekki þess virði, að í það sje eytt löngum tíma frá öðrum þingstörfum. Læt jeg svo máli mínu lokið að þessu sinni og býst ekki við að taka aftur til máls við þessa umr. málsins.