05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2795)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Jón Þorláksson:

Jeg ætla aðeins að minnast nokkrum orðum á það atriðið, sem mestum andmælum hefir sætt, ákvæðið um skattgjaldið. í raun rjettri er þetta ákvæði í lögum nú, þar sem það er skilyrði fyrir þessum kosningarjetti, að menn „greiði skattgjald“ í bæjarsjóð, en því hefir ekki verið framfylgt, og þess vegna þykir bæjarstjórninni varhugavert að fara nú að beita því, án þess að ný lagaheimild komi til. Þetta er heldur ekkert nýmæli, því í Danmörku er þessu framfylgt þannig, að þar eru menn strikaðir út 10 dögum fyrir kosningar, en hjer er gert ráð fyrir 3 dögum. Það er því engin ástæða til að kalla þetta endemisvitleysu, eins og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) leyfði sjer að gera.

Um annað atriði, sem hjer hefir verið talað um, aldurstakmarkið, vil jeg segja það eitt, að jeg skil varla, að þingið fari að þrengja upp á bæinn ákvæði, sem bæjarstjórnin hefir felt — ef það á aðeins að gilda fyrir Reykjavík sem undantekningu. Hitt er auðvitað annað mál, ef það á að verða alment ákvæði um sveitarstjórnarkosningar um alt land, eins og háttv. þm. Dala. (B. J.) fer fram á, því þá þarf ekki frekar að fara að vilja bæjarstjórnar Reykjavíkur en annara um þetta.