15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

Rannsókn kjörbréfa

Sigurður Eggerz:

Jeg ætla að eins að gera stutta athugasemd. Mig furðar á því, að háttv. þni. N.-Ísf. (S. St.), sem talaði með svo miklum þunga um það, hve kosningin væri gölluð, skuli hafa látið sannfærast svona fljótt. Því verður ekki neitað, að kjörskráin var búin til á ólöglegum tíma, eins og sjest á því, að 1500 kærur komu fram. Óvenjulega margir kjósendur, og það gamlir borgarar, voru ekki á kjörskrá. Margir gleyma að athuga, hvort þeir eru á kjörskrá, en það er skylda stjórnarvaldanna að sjá um, að þeir sjeu ekki útilokaðir frá að gæta rjettar síns.

Þótt háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) vildi láta líta svo út, sem það væru aðallega D-menn, sem fyndu gallana á kosningunni, þá er það rangt. Allir flokkar, einnig A. B og C, telja kosninguna ólöglega. Það er enginn vafi á því, að kjósendur hjer í bæ myndu kunna Alþingi þakkir, ef það sæi um, að svo væri frá kjörskrá gengið, að trygt væri, að ótal kjósendur mistu ekki kosningarrjett sinn. Það er sjálfsagt að víta bæjarstjórnina fyrir framkvæmdir hennar í þessu máli. Jeg vil minna forseta á, að jeg óska þess, að till. um frestun kærunnar verði borin fyrst upp.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) var svo hógvær í þessari síðustu ræðu sinni, að jeg finn ekki ástæðu til að bæta við það, sem jeg sagði í fyrstu ræðu minni. Hann sagði, að á síðasta þingi hefði jeg viljað styðja stjórnina. Sá flokkur, sem jeg er í, var sá, sem tók skýrasta afstöðu til hennar, og var í beinni andstöðu við hana. Á þinginu var stór flokkur, annar en sjálfstæðisflokkurinn, sem skoraði á mig að vera áfram í stjórninni, en jeg vildi það ekki, og má því háttv. þm. (Jak. M.) ekki halda því fram, að fyrir eigin vonbrigði hafi jeg snúist á móti stjórninni.