16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2802)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Þórarinn Jónsson:

Það er aðeins ör stutt athugasemd, sem jeg vildi leyfa mjer að skjóta að háttv. flm. brtt. á þskj. 253 (J. B.). Hann hefir líklega tekið eftir því, að ef sumar af þessum greinum ýmsra laga, sem taldar eru upp í brtt., eru feldar úr gildi, þá falla einnig niður ýms önnur atriði, sem ekki koma kosningarrjettinum við, t. d. að konur verða eftir þessari brtt. skyldugar að taka sæti í hreppsnefnd, en eru það ekki eftir núgildandi lögum; sömuleiðis fellur niður ákvæði um skyldleika þeirra, sem sæti mega taka í hreppsnefnd.

Vitanlegt er, að um leið og konur hafa fengið jafnrjetti við karlmenn, þá hafa þær líka tekið á sig skyldurnar, sem rjettindunum fylgja, en þó er óviðkunnanlegt að neyða þær til að gegna þeim störfum, sem þær eru frábitnar, enda nóg fyrir þær flestar að starfa heima á búum sínum.

Það var aðeins þetta, sem jeg vildi taka fram, svo mönnum sje það ljóst; annars hefi jeg ekki haft tíma til að bera tilvitnanir brtt. saman við öll lögin og veit því ekki, hvort upptalning þessi er tæmandi.