16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (2804)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Magnús Jónsson:

Það er aðeins út af því, sem hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.) sagði, að jeg stend upp. Mjer finst það alveg sjálfsagt, að þetta ákvæði komist inn í lögin, að konur geti ekki skorast undan að taka þátt í hinu opinbera lífi, og engin ástæða til að láta þær hafa undanþágur frá borgaralegum skyldum, er þeim hafa greiðlega verið veit: borgaraleg rjettindi til jafns við karlmenn.

Hver kona eða karl hefir vörn í móti því, að þeim sje nauðugum troðið í sæti í sveitarstjórn. Hafi menn gildar ástæður, geta menn spilt slíkri kosningu, og býst jeg við, að menn, svona fyrst um sinn að minsta kosti, taki ástæðurnar gildar, ekki síst hjá konum, sem oft og einatt eiga enn óþægilegra með að sinna slíkum störfum en karlmenn. En það er ósamræmi, að konur sjeu undanþegnar þessum skyldum.

Jeg álít, að brtt. hv. samþm. míns (J. B.) sje til mikilla bóta, þó að upptalningin sje ef til vill ekki í alla staði tæmandi. Það er vitanlegt, að öll lagaákvæði, sem fara í bág við ný lög, eru úr gildi fallin þar með, hvort sem þau eru nefnd eða ekki, en það er góð regla og til mikils hægðarauka fyrir þá, sem lögin þurfa að nota, að sem flest sje upp talið af því, sem úr gildi á að falla.