09.05.1921
Efri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2811)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Guðmundur Ólafsson:

Það fer ekki mikið fyrir þessu frv., og efni þess er ekki neitt nýmæli, ef dæma á eftir ræðu hv. frsm. nefndarinnar (S. F.). En það er einkennilegt við það, hvílíkan sand af lagafyrirmælum það nemur úr gildi. Það eru víst ein 7 eða 8 lög, sem það breytir að verulegu leyti. Ef hv. deild fellst á brtt. hv. allshn., þá er sú breyting gerð á gildandi ákvæðum, að gjald til sveitarsjóðs verður ekki lengur skilyrði fyrir kosningarrjetti. Og sú breyting virðist nú ekki gera mikið til, þótt mjer hins vegar þyki hún ekki til bóta.

Hitt þykir mjer verra, sem ekki hefir verið getið um, að eftir frv. mega hjón, foreldrar og börn, föðurforeldrar og móðurforeldrar, sitja í sveitarstjórn samtímis. Gegn þessu hefir verið ákvæði áður, og allir unað vel við og þótt sjálfsagt. Þetta finst mjer mjög varhugaverð breyting. Eftir frv. væri ekkert því til fyrirstöðu, að sveitarstjórn eða bæjarstjórn sje skipuð aðeins einni fjölskyldu, þótt í henni ættu sæti 5 eða 7 menn eða fleiri.

Þá mælir það ekki með frv., hversu mörgum lögum það breytir, og það nýjum lögum. Þetta veldur ruglingi. En þó skiftir hitt mestu máli, að lögin verða verri að miklum mun eftir en áður. Og jeg skil satt að segja ekkert í því, hvernig svo slysalega hefir getað tekist til, að frv. er komið í gegnum hv. Nd. og hv. allshn. þessarar deildar hefir fallist á það að mestu, án þess svo mikið sem benda hv. deild á þessa gagn gerðu breytingu.