09.05.1921
Efri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (2812)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Sigurður Eggerz:

Jeg vildi minnast örfáum orðum á þann ágreining, sem jeg gerði í nefndinni. Jeg vil mæla með því, að 1. málsgr. 1. gr. verði samþ. eins og hún kom frá hv. Nd.

Framþróun stjórnskipulagsins fer nú á tímum yfirleitt í þá átt að láta ekki kosningarrjett vera bundinn við fjármuni, þar eiga allir að vera jafnir, fátækir sem ríkir. Engum dettur í hug að láta þann, sem á miljónir, eiga mörg atkv. Og það er beint áframhald af þeirri reglu, að láta menn ekki missa atkvæðisrjett, þótt þeir hafi orðið að þiggja fjárhagslega hjálp hjá hinu opinbera, til þess að framfleyta sjer og sínum. Þótt menn hafi orðið að þiggja sveitarstyrk, þá geta þeir verið ágætir menn, og reynslan hefir sýnt, að börn þeirra hafa engu síður getað orðið góðir borgarar en önnur börn, en það sýnir, að foreldrarnir hafa látið þeim eftir góðan arf í þroska og uppeldi, þótt þau, af ytri ástæðum, hafi orðið fyrir því óhappi að þurfa að þiggja af sveit. Því er ranglæti að svifta þá kosningarrjetti.

Móti þessu verður það væntanlega sagt, að sumir þessir menn hafi farið ráðlauslega með efni sín og kunni ekki að hafa á hendi fjárforráð sín, hvað þá heldur annara. Og að vísu er það satt, að svo er ástatt um suma af þessum mönnum, en þeir munu ekki færri, sem eingöngu vegna heilsuleysis og annara óviðráðanlegra óhappa hafa orðið að þiggja af sveit. Og á þá að láta þá gjalda þeirra ráðlausu? Og meðal þeirra, sem enginn efast um að eigi að hafa kosningarrjett, eru líka margir, sem áreiðanlega kunna ekki með fje að fara. En dettur samt nokkrum í hug að fara að svifta alla rjettinum fyrir það? Þetta er bein afleiðing af þeirri niðurstöðu, sem menn eru komnir að, sem sje þeirri, að kosningarrjettur eigi ekki að bera bundinn við fjárhag manna.

Vitanlega mætir þessi rýmkun á kosningarrjettinum mótspyrnu. Sjerhver rýmkun á honum hefir jafnan mætt mótspyrnu. Svo var fyrir nokkrum árum, þegar verið var að veita konum kosningarrjettinn. Þó hefir sú rýmkun ekki haft neinar illar afleiðingar; þvert á móti. Og nú mundu fáir hafa kjark til þess að berjast fyrir því að svifta konur kosningarrjetti. Rýmkun kosningarrjettarins eykur þeim, sem hann fá, ábyrgð og þroska, og vekur þá til umhugsunar og athugunar á því, til hvers þeir lifa í þjóðfjelaginu.

Jeg vona nú, að hv. deild taki þessu vel og samþ. þessi ákvæði, eins og hv. Nd. Og þótt svo fari, að þetta frv. verði felt hjer nú, þá er jeg sannfærður um það, að það verður aðeins töf, því að þetta verður undir eins tekið upp aftur og aftur, þar til það gengur fram. Og það verður aldrei langt þangað til hætt verður að refsa þessum mönnum, þótt þeir verði að leita á náðir hins opinbera, til þess að geta alið upp borgara handa þjóðfjelaginu. Það er alt of þung refsing að svifta þá frumrjettindum sínum í þjóðfjelaginu, auk þeirrar auðmýkingar, sem þetta hefir í för með sjer, og er sannarlega mörgum fullþung.