09.05.1921
Efri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (2815)

70. mál, kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórnar og sveitarstjórnar

Sigurður Eggerz:

Hv. 1. þm. Húnv. (G. Ó.) var að tala um það, að ekki væri gott, að bæði maður og kona sætu í sveitarstjórn. Jeg skal játa, að slíkt mætti að jafnaði teljast óheppilegt, en hins vegar skil jeg ekki í öðru en trúa megi kjósendum fyrir því að sjá um, að svo verði ekki. En jeg fyrir mitt leyti get fallist á, að þetta ákvæði verði aftur tekið upp í frv.

Að því er snertir athugasemdir hv. 1. landsk. varaþm. (S. F.) um það, að þeir væru jafnan frakkastir að ausa fje úr sveitarsjóði, sem minst borguðu í hann, þá vil jeg benda á það, að minstu muni, þótt markalínan sje færð lítið eitt neðar, því eins og allir vita, þá eru nú fyrir ofan strikið margir, sem illa eru staddir fjárhagslega, og eiga því sveitarsjóðir þar fyrir fult af talsmönnum örlætisins. Væri því ekki hundrað í hættu, þótt fáir bættust við.

Þetta er aðallega mannúðaratriði, sem hjer er um að ræða, og finst mjer því öll ástæða til, að menn veigruðu sjer við að vera á móti því.

Auk þess getur hjer oft orðið vont að gera upp á milli manna, því það eru margir, sem ekki þiggja sveitarstyrk, en þiggja styrk af frændum sínum og vandamönnum.

Hv. 3. landsk. þm. (S. J.) sagði, að það væru aðeins einstök tilfelli, er menn færu á sveitina sökum heilsubrests, en jeg verð að segja, að þau „tilfelli“ sjeu æðimörg. Annars má ekki láta heildina gjalda undantekninganna, og það verður aldrei hægt að girða fyrir það, að ýmsir fái kosningarrjett, sem ekki kunna að fara með atkv. sitt.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira, þar sem lagt er til, að málið verði nú tekið út af dagskrá.