03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (2845)

113. mál, sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu megi fela öðrum sérstök störf

Flm. (Þorleifur Jónsson):

Sá þingmaður, sem ekki hefir getað sótt þetta þing fyrir lasleika sakir, Gísli Sveinsson sýslumaður, hefir sent þetta frv. hingað með þeim tilmælum, að það væri flutt á Alþingi. Frv. kom of seint suður til þess, að hægt væri að leggja það fyrir hið háa Alþ. án afbrigða frá þingsköpum, en jeg hefi nú tekið að mjer flutning þess eftir beiðni hæstv. fjrh. (M. G.). Frv. fylgir greinargerð frá hendi sýslumannsins, og getur hv. deild sjeð þar ástæður þær, sem hann telur því til gildis.

Jeg skal geta þess, að það mun óvíða jafnmiklum erfiðleikum bundið að þjóna sýslumannsembætti eins og í Skaftafellssýslu, vegna hinna miklu vegalengda þar og stórvatnanna, sem oft eru ófær yfirferðar; og þegar Skeiðará hleypur, er, eins og kunnugt er, öll umferð tept um langt skeið. Sýslumaðurinn, sem er búsettur vestast í Vestursýslunni, getur líka orðið teptur við embættisstörf í Vestursýslunni á þeim tíma, sem búið er að boða sýslufund og manntalsþing í Austursýslunni, og hefir því nokkrum sinnum komið fyrir, að þurft hefir að setja mann eystra til að gegna þessum störfum, halda uppboð o. s. frv. Slíkt getur átt sjer stað annarsstaðar, þar sem sami sýslumaður hefir tvö sýslufjelög undir, og þurfa þeir þá að geta falið hreppstjórum eða öðrum hæfum mönnum þau störf, sem hægt er að meinalausu, þegar forföll banna þeim sjálfum að framkvæma þau. Það er ekki meiningin með þessu að hvetja sýslumenn til að fela öðrum mönnum störfin að óþörfu. Jeg álít, að almenningur eigi heimtingu á að ná tali af sýslumanni sínum einu sinni á ári, ef þeim er unt að ferðast um, enda er tekið fram í frv., að heimildin gildi aðeins, „ef forföll banna þeim sjálfum (sýslumönnunum) að framkvæma þessi störf.“

Það gæti litið svo út, að þetta sje ekki bráðnauðsynlegt, því sýslumenn geti fengið löggilta menn fyrir sig af stjórnarráðinu, ef þeir sjálfir eru tálmaðir. En höfundi frv. hefir fundist óhagkvæmt að þurfa altaf að hlaupa til stjórnarráðsins í hvert skifti, sem þörf væri á slíkri löggiidingul

Jeg býst við, að frv. verði vísað til allshn., og vona, að hún afgreiði það fljótt, svo það geti komist gegnum þingið.