03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í C-deild Alþingistíðinda. (2847)

113. mál, sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu megi fela öðrum sérstök störf

Gunnar Sigurðsson:

Jeg er sammála hæstv. forsrh. (J. M.) um það, að manntalsþing eigi helst ekki aðrir að halda en sýslumaðurinn. Og því tel jeg óþarfa að gera undantekningu um Skaftafellssýslu eða yfir höfuð nokkra sýslu. Eins og hæstv. forsrh. (J. M.) tók fram, þá kostar það sýslumanninn aðeins símskeyti að fá löggildingu á manninn fyrir sig, og enn fremur er það víst, að hvaða stjórn sem er mundi telja það skyldu sína að gera slíkt, þegar lögmæt forföll eru fyrir hendi. En sýslumaðurinn sparar sjer alls ekki þetta skeyti, þó frv. yrði samþ., því samkvæmt því er honum gert að skyldu að skýra stjórnarráðinu frá ráðstöfuninni í hvert skifti. Frv. er því í rauninni algerlega þarflaust.