12.05.1921
Neðri deild: 68. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (2855)

113. mál, sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu megi fela öðrum sérstök störf

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi látið þetta mál afskiftalaust við 1. og 2. umr. Jeg skil samt ekki nauðsyn frv., og mig furðar dálítið á því, að hæstv. stjórn skuli álíta það nauðsynlegt fyrir hið háa Alþingi að láta frá sjer fara lagafyrirmæli um annað eins og þetta. Vitanlega er frv. þetta komið fram vegna sjúkleika eins embættismanns. En þar sem stjórnin hefir heimild til þess að veita þessum sýslumanni leyfi til þess að fela öðrum að gegna fyrir sig störfum, sem hann, vegna lasleika eða annara orsaka, getur ekki framkvæmt sjálfur, þá sýnist það vera óþarfi að setja lög um það.

Jeg man ekki betur en sagt hafi verið, þegar launalögin voru hjer síðast til umr., að sýslumenn gætu falið hreppstjórum að halda uppboð fyrir sig. Því óskiljanlegra verður það þá, hvað lög eiga að þýða um það efni.

Þá má líta á það, að búast má við því, að fleiri sýslumenn komi á eftir, og þá helst þeir, sem hafa strandlengissýslur eða tvö sýslufjelög, því það eru fleiri sýslur erfiðar yfirferðar heldur en Skaftafellssýsla. Jeg ætla þá með það fyrir augum, að stjórnin veiti sýslumönnum leyfi til þess að láta aðra framkvæma fyrir sig störf, þegar nauðsyn krefur, að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

Í því trausti, að stjórnin heimili núverandi sýslumanni í Skaftafellssýslu að fela viðkomandi hreppstjórum að framkvæma ýms þau störf, er sýslumenn hafa á hendi, svo sem að halda manntalsþing, stjórn sýslufunda eða önnur þau störf, er hann kann forfalla vegna ekki að vera fær um að inna af hendi og ekki eru þess eðlis, að útkljá þurfi með dómsúrskurði, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Með því að jeg lít svo á, að beiðni sýslumannsins sje fullnægt með þessu, þá leyfi jeg mjer að afhenda forseta þessa till. til rökstuddrar dagskrár.