14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (2864)

113. mál, sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu megi fela öðrum sérstök störf

Halldór Steinsson:

Þetta virðist mjer vera eitt af hinum nauðaóþörfu frv. sem koma fram aðeins til þess að tefja tíma þingsins. Það fjallar um það, að sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu megi fela hreppstjórum eða öðrum umboðsmönnum sínum að halda uppboð, stýra sýslufundi og framkvæma fleiri þau störf, sem sýslumaður á að vinna. En um þetta er alveg óþarft að setja sjerstök lög. Stjórnarráðið mundi áreiðanlega samþykkja slíkt í hvert skifti, sem sýslumaður óskaði þess, og ástæða væri til. —

Jeg held því, að rjettast væri að fella frv. nú þegar, til þess að eyða ekki tíma deildarinnar að óþörfu.