12.03.1921
Neðri deild: 21. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2867)

82. mál, atvinna við vélgæslu á íslenskum mótorskipum

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Þetta frv. stendur í nánu sambandi við lög nr. 13, 18. maí 1920, um kenslu í mótorvjelfræði. Þau lög hafa enn ekki komið til framkvæmda, en jeg vona, að drátturinn á framkvæmdunum verði sem minstur úr þessu. Þegar tekið verður til starfa samkvæmt þeim lögum, er nauðsynlegt, að til sjeu lagaákvæði um rjettindi og skyldur þeirra manna, er lögin ná til. Nauðsynin á skjótri framkvæmd laganna er því brýnni, þar sem nú er fallin niður sú kensla Fiskifjelagsins, sem áður var, og þótt hún hafi ekki verið eins fullkomin og æskilegt var, mun hún hafa orðið til mikilla bóta. Kennarinn á þessum námsskeiðum var ágætlega til starfans fallinn, en að öðru leyti voru skilyrðin mjög bágborin, því öll tæki til kenslunnar vantaði.

Jeg þykist ekki þurfa að fara mörgum orðum um þetta mál. Jeg hygg, að hv. deildarmönnum sje það ljóst. Út í einstök atriði ætla jeg ekki að fara. Jeg vona, að hv. þm. sjái, að fyrirkomulagið, sem farið er fram á, er hnitmiðað við það, að þeir menn, sem reynst hafa starfi sínu vaxnir í þessari grein, missi einkis í af rjettindum sínum, er þeir þegar hafa aflað sjer. Ennfremur er áhersla lögð á það, að atvinnuvegurinn geti framvegis orðið stundaður með minni hættu fyrir líf manna og eignir. Jeg vona því, að málið fái góðar undirtektir.

Jeg álít ekki þörf á, að málið fari til nefndar, en ef mönnum þykir það viðkunnanlegra, mun jeg ekki setja mig á móti því, og ætti þá frv. að fara til sjávarútvegsnefndar.