18.04.1921
Neðri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2870)

82. mál, atvinna við vélgæslu á íslenskum mótorskipum

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Það er ekki ástæða til þess að fjölyrða mikið um málið, enda er gerð grein fyrir því í nál. á þskj. 304. Það er mikil nauðsyn á því að setja lagaákvæði um þetta efni, en hins vegar hefir það ekki verið hægt til þessa, þar sem menn hafa ekki átt kost á nægri fræðslu eða undirbúningi undir þennan starfa. En úr því átti að bæta með lögunum um stofnun mótorvjelstjóraskólans, sem samþ. voru á síðasta þingi, þó sá skóli hafi enn ekki verið stofnaður. Vil jeg því nota tækifærið til þess að skora á hæstv. stjórn að láta það nú ekki dragast miklu lengur, að skóli þessi taki til starfa.

Af þessum ástæðum hefir orðið að fara fremur vægilega í sakirnar í kröfum um þekking manna í þessu frv. — fyrst um sinn — og gengur þetta stig af stigi, og er hert á kröfunum eftir því sem vjelarnar eru stærri og margbrotnari, sem stjórna á. Annars eru breytingar nefndarinnar ekki efnisbreytingar, heldur leiðrjettingar á ósamræmi í frv., eða viðbætur til skýringar. Vænti jeg þess svo, að hv. deild taki málinu vel.