09.05.1921
Efri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (2880)

82. mál, atvinna við vélgæslu á íslenskum mótorskipum

Guðjón Guðlaugsson:

Það er tæpast, að jeg geti tekið til máls um þetta frv. nú, því að það er til 3. umr., og á að verða að lögum í dag. En svo stendur á, að jeg hefi vanrækt að yfirvega frv., fyr en í morgun. Jeg verð að telja það vanrækslu, heldur en beinlínis tímaleysi.

þegar jeg fór að lesa frv. þetta í morgun, fanst mjer það talsvert athugavert. Jeg hafði engan tíma til að tala við sjávarútvegsnefndirnar og stend því „blankur“.

Í frv. þessu er ákveðið, hverjir hafi rjett til að stunda atvinnu við vjelgæslu á íslenskum mótorskipum. Og er það 2. gr., sem snertir mig sjerstaklega, því að það ákvæði, sem þar er, getur komið stórkostlega í bág við hagsmuni einstakra manna og jafnvel heilla hjeraða, því að það á að útiloka alla frá að hafa vjelgæslu á smámótorbátum, nema þeir hafi gengið undir nokkurskonar próf. Skal jeg svo taka dæmi, er sýnir það, hve illa þetta getur komið sjer. — í hjeraðinu, sem jeg átti heima í, eru tveir mótorbátar; annar er um 10 tonn og gengur til og frá um flóann til fiskjar. Hinn er 4 tonn og er notaður til flutninga. Hann er eign hlutafjelags og er notaður til að flytja vörur fyrir bændur, þegar þær koma þangað í stórum slumpum, og líka til þess að flytja sláturvörur á haustin, og fer hann þá oft 3–4 ferðir yfir daginn. — Venjulegast var nú maðurinn ráðinn til þess að fara með bátnum, nokkrum dögum áður en þessi vertíð byrjaði, en svo kom það líka oft fyrir, að ráða varð manninn því nær samstundis. Margir af þeim mönnum höfðu lært, en þó kom það fyrir að taka varð menn, sem ekkert höfðu lært; þannig varð jeg einu sinni, þó að jeg væri kaupfjelagsstjóri, að vera vjelarmaður á þessum bát í hálfan mánuð, og hefði jeg með öllu verið útilokaður frá því, ef jeg hefði þurft að hafa próf. Líka getur það komið fyrir, að vjelarmaður veikist í byrjun vertíðar, og svo sje annar maður á bátnum, sem sje jafnfær um að gæta vjelarinnar eins og hinn, en hafi ekki próf, þá er það allhart, að sá maður skuli ekki mega gæta vjelarinnar, og verði því að setja upp bátinn, ef ekki fæst lærður maður á hann.

Þessi dæmi ættu að nægja, til þess að sýna, hversu þetta ákvæði getur komið sjer illa, og það því athugavert, að gera ekkert ráð fyrir slíku, þar sem beinlínis getur stafað af því efnalegt tjón, eins og jeg hefi þegar bent á. — Það getur því eigi annað talist en alveg ótækt, að hafa þetta ákvæði undantekningarlaust um smávjelbáta, sem eingöngu eru notaðir til flutninga, því að oft þarf t. d. að grípa til þeirra í lífsnauðsyn, til þess að vitja læknis, og þannig er t. d. ástatt í Reykjafjarðarhjeraði.

það má nú ef til vill segja, að samkvæmt 1. gr. sje öllum heimilt að vera vjelstjórar, þegar það telst ekki vera atvinna þeirra, en þetta er þá ekki nógu skýrt, og hefði þurft að skýrast í nál. að minsta kosti. Það væri nú betra en ekki, að fá yfirlýsingu sjávarútvegs nefndar um þetta atriði.

Með hinn mótorbátinn, sem jeg gat um áðan, og er 10 tonn, hefir altaf farið sami maðurinn í samfleytt 10 ár, og hefir aldrei orðið neitt að hjá honum, og hefir hann þó aldrei próf tekið. En þeir, sem kunnugir eru á Húnaflóa, hljóta að þekkja það, að þar eru þó stundum þokur og stormar, og sker eru þar mörg. En ef þetta frv. verður að lögum eins og það er, þá hefir maður þessi ekki rjett til þess að vera með vjelbát þennan lengur, nema hann taki próf. — Og þannig getur verið um marga fleiri.

Mjer hefir því dottið í hug að koma með brtt., sem gengi í þá átt, að hægt væri að fá undanþágu frá þessu í sjerstökum tilfellum, og að t. d. þeir, sem búnir væru að stunda vjelgæslu í 5–10 ár, þyrftu ekki að taka próf. — Jeg vildi því leyfa mjer að óska þess, að málið verði tekið af dagskrá.