17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2895)

29. mál, einkasala á kornvörum

Halldór Steinsson:

Þó það sje venja hjer á þingi að vera stuttorður við 1. umr., get jeg þó ekki komist hjá að vera nokkuð langorður í þetta skifti. Eins og nú stendur, er kvartað mjög um dýrtíð og viðskiftakreppu. Það er kvartað yfir aðgerðaleysi þings og stjórnar og að þessum vandræðum verði að ryðja burt.

Þessar kvartanir eru á fullum rökum bygðar. Síðan 1914 hefir dýrtíðin farið vaxandi, og nú keyrir hún úr hófi. Menn hafa vonað, að dýrtíðin mundi batna, sjerstaklega nú upp á síðkastið, er spurst hefir um verðlækkun að mun í öðrum löndum, en sú von hefir brugðist. Þó er óhætt að segja, að vörur fari nú lækkandi alstaðar annarstaðar en á Íslandi. Engan skyldi því furða á því, þótt menn hugsi áhyggjufullir um þennan ófögnuð og brjóti heilann til þess að finna eitthvert ráð við kvilla þessum. Til þessa eru margar ástæður; mætti nefna peninga- og bankamálin, sem eru í mesta ólagi, og eru þau þó ein af helstu slagæðum viðskiftalífsins. Sala afurðanna hefir og brugðist. Og ofan á þetta bætast viðskiftahömlur, sem upphaflega voru gerðar í sparnaðarskyni, en hafa borið alveg gagnstæðan árangur. Það er ekki einhlítt að benda á sparnað. Aukin framleiðsla er ómöguleg, því alt þar tilheyrandi fer stórhækkandi; framleiðslan samsvarar ekki þörfunum. Í sjálfu sjer er sparnaðurinn góður, en hann kemur ekki að notum, ef því litla, sem sparað er, er kastað á glæ. Annars hefi jeg litla trú á lagaboðum til sparnaðar. Það eru margir bláfátækir, sem hafa naumast í sig og á, og ef á að fara að heimta af þeim meiri sparnað, þá er það það sama og að skipa þeim að svelta. Það verður að grafa dýpra fyrir ræturnar á þessu ólagi. Það verður að koma skipulagi á bankamálin, afnema viðskiftahömlurnar og hleypa inn nýjum, heilbrigðum versl.- straumum, bygðum á frjálsri samkepni. Með þessu frv. yrðum við keyrðir enn dýpra niður í kreppu þá, sem enn er og ekki sjest fyrir endann á. Án þess að jeg vilji fara nokkuð nánara út í landsverslun — það geri jeg líklegast síðar — vil jeg með nokkrum orðum minnast á frv.

Hinar 3 ástæður, sem tilgreindar eru í aths. stjórnarinnar við frv., eru allar heldur veigalitlar. 1. ástæðan er sú, að tryggja landinu góðar og ódýrar vörur. Já, miklir menn erum við, Hrólfur minn. Annars er nú vanalegra hægara að lofa en efna slíkt. Höfum við hingað til átt kost á að fá góðar og ódýrar vörur hjá landsversluninni? Er nokkur ástæða til að halda, að það verði betra hjer eftir en undanfarin 6 ár? Jeg hefi enga trú á því. Það er engin ástæða til að álíta, að hún hafi tækifæri til að tryggja vörugæði betur en kaupmenn, og verðið verður engu lægra en hjá þeim. Landsverslun á þeim vörum, sem hjer um ræðir, hefir afarkostnað í för með sjer, og þarf þá til rekstrar hennar afarmikið fje, auk þess sem frv. gerir ráð fyrir að leggja talsverða upphæð í varasjóð. Þessi ástæða er fyrirsjáanlega mjög ljettvæg.

2. ástæðan er að varna því, að fóðurskortur eigi sjer stað, þótt stórar misfellur komi fyrir í árferði og aðflutningum.

3. ástæðan er að varna stórtjóni á búpeningi, þegar óvenjuleg vorharðindi ganga og þar af leiðandi fóðurskortur.

Jeg held, að hægt sje fyrir stjórnina, í samráði við kaupfjelög, samvinnufjelög og kaupmenn að ráða fram úr þessu, án þess að landsverslun eigi sjer stað, því stjórninni er skylt að vera á verði, er einhver slík vandræði ber að höndum.

Það er ekki hægt að segja annað en að allar þessar þrjár ástæður stjórnarinnar sjeu ákaflega veigalitlar. En aftur á móti eru margar á móti og sumar allþungar á metunum. Skal jeg þar leyfa mjer að benda á eina, sem jeg tel nægilega til að sanna, að landinu sje með þessu teflt hreint og beint í fjárhagslegan voða.

Eins og allir vita, kvartar stjórnin mjög undan fjárskorti sínum, og er það síst að ófyrirsynju, þar sem tekjulindir hennar gera ekki betur en hrökkva til þess að halda stjórnarbákninu gangandi, og ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir verða við það að sitja á hakanum. — En hvað hugsar þá stjórnin með því að fara að fitja upp á öðru eins og þessu? Ætlar hún, að hún geti fjelaus ráðist í slíkt? Henni ætti þó ekki að vera minna ætlandi en að vera það ljóst, að það þarf afarmikið fje til að reka slíka verslun, svo mikið fje, að það myndi skifta mörgum miljónum króna, sem til láns þyrfti að taka. Yrði þetta og þeim mun tilfinnanlegra, sem landsverslun þessi yrði jafnan að liggja með miklar birgðir og of fjár fast í þeim.

En gerum nú ráð fyrir, að lán fáist og verslun þessi komist á fót. Hverjar yrðu þá afleiðingarnar? Að minni hyggju yrðu þær alt annað en glæsilegar. Þetta myndi að eins herða á viðskiftaböndunum og auka fjárhagsvandræðin, sem virðast þó fullnóg fyrir. Eins og kunnugt er, lækka vörur nú óðum erlendis. Ef því landsstjórnin keypti inn vörur í stórum stíl, þá mundi hún að skömmum tíma liðnum sitja með birgðir til sölu, sem seljast yrðu talsvert hærra en vörur, sem væru þá keyptar gagngert frá útlöndum. Þessa gætir síður með heildsala og kaupmenn, sem jafnan kaupa í smáum stíl. — Er hætt við, að mörgum myndi, er til lengdar ljeti, þykja þröngt við að búa, en við því yrði þó ekki gert, því auðvitað yrði landsstjórnin að selja sjer að skaðlausu.

Til þess að benda á, að þetta er ekki sagt út í bláinn, nægir að taka dæmin frá landsversluninni. Það verður víst varla með tölum talið, hve mikið hefir tapast á birgðum þeim af kolum, sykri og kornvöru, sem hún hefir legið með að óþörfu. Það er litlum efa bundið, að svona myndi fara, og ekki betur, ef verslun sú, sem hjer er um að ræða, kæmist á fót.

Jeg skal að endingu geta þess, að mjer líst svo þunglega á frv. þetta og stefnu þá, er það ber með sjer, að jeg hefði ekki orðið því fylgjandi, þótt það hefði verið borið fram á „normölum“ tímum, en því síður nú. — Er ekki trútt um, að mig furði á stjórninni fyrir að hafa einurð og þrek til þess að leggja það fram fyrir þetta þing.