17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (2896)

29. mál, einkasala á kornvörum

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg efa það ekki á nokkurn hátt, að frv. þetta sje flutt af heiluni hug. Er það og drengilegt að reyna til að koma fram því, er þá dreymdi um í æsku, þegar menn verða nokkurs ráðandi. — En hvað frv. þetta snertir, þá virðist mjer það algerlega ófallið til þess að verða að lögum, að minsta kosti á þessu þingi. Það hefir það sameiginlegt við önnur einkasölufrv. stjórnarinnar, hve mjög höndum er kastað til undirbúningsins; kostnaðurinn við framkvæmd laganna er ekki rannsakaður til neinnar hlítar. Stjórnin sýnist hvorki hafa gert sjer, nje þá heldur þm., neina viðunandi grein fyrir stofnkostnaðinum nje heldur rekstrarkostnaðinum, og verður það undirbúningsleysi tilfinnanlegast að því er þetta frv. snertir, af því að hjer veltur á langhæstri fjárhæðinni. Flest það, er að framkvæmdum lýtur, á að ákveðast eftir á — með reglugerðum. — Land þetta á því ekki lengur að byggja með 1ögum, heldur með reglugerðum, sem vel geta orðið að ólögum.

Það er líka athugavert, að hjer er á því bygt að afla útlendrar vöru til fóðurbætis, þótt svo mikið sje af þeirri vöru í landinu sjálfu. Undanfarin styrjaldarár hafa þó kent þjóðinni, hve holt það er að byggja framtíð sína eftir föngum á heimafengnum afurðum.

Enginn veit heldur, hve mikið lánsfje myndi þurfa. Og er svo víst, að lánið myndi fást? Fengist það ekki, þá yrði það fremur til álitshnekkis fyrir landið út á við, en stjórnina sjálfa inn á við.

En sje nú gert ráð fyrir því, að lánið fáist, með hverjum kjörum myndi það verða? Lánið þyrfti að vera til 20 ára. Síðastliðið sumar tók frakkneska stjórnin 1 miljarð dollara að láni hjá einum auðmanni í Vesturheimi, og varð að skuldbinda sig til að greiða 8 af hundraði í þessi 20 ár. Víst mundi þetta litla ríki ekki komast að betri kjörum.

En ekki skiftir það minstu máli í mínum augum, að mjer finst ógerningur að ráðast í þetta nú, eins illa og fjárhagnum er komið hjá okkur, og þá einkum það, hver vandræði eru að verða í landinu með það að útvega atvinnuvegum landsins það rekstrarfje, sem þeir þurfa.

Eigi að leggja vörurnar upp á öllum verslunarstöðum landsins, þá verður að hafa hús á hverjum þessum stað, til þess að geyma vörurnar í, því rjett er, að saman fari rjettindi og skyldur, og ekki er þá hægt að heimta, að kaupmenn birgi sig upp að vörunni, nema eftir því, sem þörf kallar að. — Tökum dæmi: Kaupmaður vill fá, segjum 50 poka af kornvöru að haustnóttum. Ætti þá að skylda hann til þess að geyma, segjum 10 poka fram í aprílmánuð og svo koll af kolli, þá yrði af þessu talsverður kostnaðarauki fyrir verslun hans, en aðalbirgðirnar verður landið að geyma á hverjum stað, þangað til þær seljast upp. Undir þær birgðir þyrfti mikið húspláss, og hlyti þetta því að hafa í för með sjer geysilegan byggingakostnað, því það væri algerlega undir hælinn lagt, hvort hægt væri að fá geymslustað með hæfilegum kjörum. Er ekki við því að búast, að kaupmenn fyndu neina hvöt hjá sjer til þess að hliðra til við landsstjórnina í því efni, svo framarlega sem þeir gætu geri eitthvað annað við hús sín, sem væri jafnábatavænlegt. Af þessu leiddi og það, að nokkru af þungavöru landsins væri kipt burt frá þeim samgöngutækjum meðfram ströndum landsins, sem landssjóður yrði að kosta hvort eð er og þjóðin á heimtingu á að ríkið sjái um og styrki. Yrði þetta því sýnilega kostnaðarauki fyrir ríkið. Væri vörunum lagt upp á aðeins fáa staði og yrði þetta þannig nokkurskonar ný landshornaverslun í líkingu við þá landsverslun, sem hjer hefir verið rekin undanfarin ár, þá myndi leggjast svo stórfeldur aukakostnaður til flutningsgjalds, framskipunar og uppskipunar, á vöruna, að ótrúlegt er, að það hjeldist uppi til lengdar, enda er slík landshornaverslun með öllu óviðunandi.

Jeg er þeirrar skoðunar, að ef til vill væri rjettast, að mál þetta hyrfi algerlega af dagskrá þingsins að þessu sinni. Jeg tel stjórninni lítinn ávinning að því, að það verði þrautrætt í þessum búningi, en þingið hins vegar nóg með sinn tíma að gera. Þó skal jeg taka það fram, að af því að málið er svo mikilvægt, þá vil jeg ekki amast við því, að það fari til 2. umr. og athugist í nefnd.