17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2900)

29. mál, einkasala á kornvörum

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg stend við það, sem jeg sagði áðan um þetta mál. Jeg held, að við megum ekki við því að hafna því fje, sem kaupmannastjettin vill leggja fram til verslunarrekstrarins. Við megum ekki taka það lánstraust, sem landið getur aflað sjer, frá aðalatvinnuvegunum, og nota það til rekstrar í þessu skyni.

Það var minst á það áðan af hæstv. atvrh. (P. J.) og öðrum, að við ættum sjálfir að mala kornið, sem til landsins flyttist, og hvaða þýðingu það hefði, ef öll kornvara væri möluð í landinu sjálfu.

Jeg er þar á sama máli. En það er engan veginn nauðsynlegt, að landið taki einkasölu á þessum vörutegundum, til þess að koma því í framkvæmd. Sem stendur eru engin skilyrði fyrir hendi til þess, að við getum neytt kornvöru, malaðrar í landinu sjálfu. En þegar komnar eru á fót nægilega margar mylnur til þess að mala alla þá kornvöru, sem til landsins flyst, þá getum við bannað að flytja malaða kornvöru til landsins. Vitanlega mun ekkert þing gera það, nema trygging sje fyrir því, að mjölið fáist jafnódýrt hjer og úr erlendum mylnum.

Það, sem mjer þótti mestu máli skifta, var það, að hæstv. atvrh. (P. J.) talaði um, að málið ætti ekki að koma til framkvæmda fyr en eftir 2 ár. Ef sú er meining stjórnarinnar, þá finst mjer einsætt að fresta málinu nú, svo menn hafi nægan tíma til þess að athuga það í sambandi við þær breytingar, sem verða á högum þjóðarinnar næstkomandi 2 ár.

Þá má og vænta þess, að frv. fái betri undirbúning og verði betur úr garði gert en nú.

Nú fylgir t. d. engin kostnaðaráætlun málinu. En það hefði nauðsynlega átt að felast í greinargerð frv., svo sjeð yrði, hve mikinn kostnað væri ráðgert að ríkið hefði af framkvæmdum frv.

Jeg skildi hæstv. atvrh. (P. J.) svo, sem hann teldi mig fara með kórvillu, þegar jeg hjelt því fram, að vörurnar ætti að flytja á hvern verslunarstað. Ef vörurnar verða ekki fluttar á hvern verslunarstað, þá verða þær auðsjáanlega langtum dýrari en þær eru með núverandi verslunarfyrirkomulagi, og dýrari en þær þyrftu að vera, auk þess sem strandferðaskip þau, sem ríkissjóður styrkir, færu á mis við miklar flutningstekjur, sem ríkissjóður yrði að bæta upp á annan hátt. Og þetta eru skyldur við landsmenn, sem ekki má vanrækja. En þeir, sem taka að sjer rjettindin, verða líka að inna af hendi skyldurnar.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að þörfin skapaði tryggingu fyrir ábyggilegri sölu þessarar vöru. Þetta er alveg rjett. Þetta eru neysluvörur, sem enginn getur án verið. Og maginn er harðasti húsbóndinn, sem við eigum. En það sannar ekki, að rjett sje nú þegar að taka einkasölu á þeim, ef engar tálmanir verða á aðflutningi þeirra og verslunin kemst í svipað horf og áður var.