17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í C-deild Alþingistíðinda. (2901)

29. mál, einkasala á kornvörum

Halldór Steinsson:

Hæstv. atvrh. (P. J.) vildi halda því fram, að viðskiftahömlurnar hefðu haft bætandi áhrif á hag landsins, og er hann þar á gagnstæðri skoðun við allan þorra landsmanna, að því er jeg þori að fullyrða.

Álítur hann það ekki viðskiftahnekki fyrir landið, ef landsmenn eru neyddir til að kaupa vörur 100–200% dýrari en þær eru fáanlegar fyrir í nágrannalöndunum? Og hverju er það að kenna, öðru en viðskiftahömlum stjórnarinnar og því, hve mikið liggur fyrir af gömlum vörum í landsversluninni, sem keyptar voru þegar vörurnar voru í hærra verði?

Eigi þetta frv. að geta náð tilgangi sínum, þ. e. þeim, að hafa ávalt miklar birgðir fyrirliggjandi af mjölvöru til verndar fóðurskorti búfjár, þá er einsætt, að kaupa verður inn mikið af vörunum í einu. En þar sem ekki mun gert ráð fyrir, að ríkissjóður eigi að reka verslun þessa með tapi, þá hlýtur hún að seljast með hærra verði en þyrfti nú, þegar vörur fara smálækkandi.

Þá hjelt hæstv. atvrh. (P. J.) því fram, að það hefði verið vel ráðið að birgja landið að kolum síðastl. haust. Um það eru skiftar skoðanir. Jeg álít, að birgðirnar hafi verið of miklar, en það getur vitanlega verið álitamál, og ekki þörf að ræða um slíkt nú. Finn jeg svo ekki ástæðu til að andmæla fleiru af því, sem hæstv. atvrh. (P. J.) sagði.