11.03.1921
Efri deild: 20. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (2907)

29. mál, einkasala á kornvörum

Frsm. (Sigurður Jónsson):

Í nál. eru tilgreindar ástæður landbúnaðarnefndar fyrir því að leggja það til við hv. deild, að frv. þetta verði afgr. hjer á þann hátt, er þar greinir. Að vísu mætti fara fleiri orðum um það, en þar er þó minst á aðalatriðin.

Hjer er komin fram brtt., á þskj. 112, frá háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.). Nefndin hefir athugað hana og kannast við, að það hafi verið vanhyggja hjá sjer að ætlast til, að gengið yrði fram hjá kaupmannastjett landsins. Fyrir því ber nefndin fram brtt. á þskj. 115, um að bæta „Verslunarráð Ísland“ inn í. Munar þá ekki öðru á tillögu nefndarinnar og brtt. hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) en því, að nefndin vill taka öll samvinnufjelög með, en hann aðeins Samband íslenskra samvinnufjelaga. Nefndinni virtist þetta ekki skifta miklu máli, en vill þó benda á það, að utan Sambandsins eru mörg samvinnufjelög. En þetta er fremur formsmunur en efnis.

Jeg býst við, að umræður snúist meira um dagskrána en frv., sem var talsvert rætt við 1. umr. Og ef nefndin hefði lagt til, að málið næði fram að ganga að þessu sinni, þá hefði hún vitanlega haft nál. sitt miklu ítarlegra og sennilega komið þá fram með ýmsar breytingartillögur.