11.03.1921
Efri deild: 20. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (2909)

29. mál, einkasala á kornvörum

Einar Árnason:

Jeg er háttv. landbúnaðarnefnd þakklátur fyrir meðferð hennar á málinu. Jeg sje af nál., að hún er sjer þess meðvitandi, að hjer er á ferðinni stórt mál og áhrifaríkt.

Það hefði verið helst til mikil fljótfærni að samþ. frv. eins og það lá fyrir og láta það verða að lögum. Til þess er málið alt of umfangsmikið. En það hefði ekki síður verið óforsvaranlegt að fella það skilyrðislaust.

Jeg er sammála landbúnaðarnefnd um, að þjóðin á að fá að segja álit sitt um málið. En þá getur verið álitamál, hvort málinu beri fremur að skjóta undir atkvæði sýslunefnda og bæjarstjórna eða undir þjóðaratkvæði, eins og mjer skildist að hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) vildi helst. Annars kemur það nokkuð í sama stað niður. Málið myndi verða rætt heima í sveitunum og sýslunefndarmenn fá á þann hátt að vita vilja landsmanna.

Jeg ætla ekki að fara út í andmæli þau, sem frv. fjekk hjer við 1. umr., þó ástæða væri til. Jeg vil aðeins fara nokkrum orðum um brtt. þær, sem fyrir liggja á þskj. 112 og 115.

Báðar till. gera breytingar á þeirri rökstuddu dagskrá, er nefndin flytur, og í brtt. á þskj. 112 er því bætt inn i, að leitað skuli umsagnar Verslunarráðs Íslands um málið.

Í fljótu bragði virðist ef til vill ekkert vera á móti þessu. En við nánari athugun má telja það gersamlega óþarft, vegna þess, að álit Verslunarráðsins er þegar komið fram.

Jeg vil helst hallast að varatill. á sama þskj., þar sem ætlast er til, að málið skuli einungis borið undir umsögn bæjarstjórna og sýslunefnda landsins. Áður en nál. um þetta frv. kom fram lá hjer frammi á lestrarsalnum álit Verslunarráðsins um einkasölufrv. stjórnarinnar, og þar á meðal þetta frv. Skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr áliti þessu þann kafla, sem snertir þetta mál. Mjer finst nauðsynlegt, að þessi ummæli Verslunarráðsins komist í þingtíðindin, svo þjóðinni gefist kostur á að meta þau eftir verðleikum, ef vera kynni, að það, sem þar er sagt, skýrði málið og hefði áhrif úti um landið. Kafli sá úr álitinu, er þetta mál snertir, er svo hljóðandi:

„Að því er snertir frv. um einkasölu á kornvöru, þá virðist óþarft að fara mörgum orðum um það. Ástæðurnar, sem færðar eru fyrir korneinkasölunni, eru eigi þær, að slík verslun færi betur í höndum ríkisins en kaupmanna, heldur hitt, að heppilegt sje á þann hátt að tryggja landbúnaðinum fóðurforða.

Það er ráðstöfun til að fyrirbyggja fellishættu. Verslunarráðið er nú þeirrar skoðunar, að málið sje svo lítt athugað og undirbúið, að af þeirri ástæðu einni komi ekki til mála að afgreiða frv. Um ráðstöfun, sem gerð er til að tryggja landbúnaðinn gegn fellishættu, er eins og um hvern annan styrk, sem veittur er sjerstökum atvinnuvegi það verða fyrst og fremst að liggja fyrir upplýsingar um, hverju styrkurinn nemi. Hjer liggja eigi fyrir neinar upplýsingar í þessu efni, en sú leið farin, til þess að koma í framkvæmd ráðstöfun, sem er í þágu einstaks atvinnuvegar, að láta alla landsmenn greiða kostnaðinn, og það á þann hátt, að hvergi kemur fram, hverju kostnaðurinn nemur. Slíkt vandamál sem trygging á fóðurforða fyrir landbúnaðinn verður að undirbúast rækilega áður en það er lagt fyrir Alþingi. Komi það í ljós, sem þó virðist næsta ólíklegt, að heppilegast sje að nota kornmat sem fóðurforða, þá eru aðrar leiðir hagkvæmari en sú, að koma á landseinkasölu í því skyni.“

Þetta er þá álit Verslunarráðsins á þessu máli. Mjer finst það svo skýrt, að óþarfi sje að leita frekari umsagna þess um málið. Jeg ætla ekki að vekja deilur um rjettmæti þessa álits Verslunarráðsins á málinu.

Get þó ekki stilt mig um að láta í ljós undrun mína yfir þeirri staðhæfingu, að með þessu frv. sje farið fram á fjárstyrk til landbúnaðarins á kostnað alþjóðar. Jeg mótmæli þessu alvarlega sem tilefnislausri árás á landbúnaðinn.

Þá er það einnig annað atriði, sem jeg vildi minnast á. Verslunarráðið lætur í ljós, að það sje ólíklegt, að heppilegasta leiðin til þess að afstýra felli sje að nota kornmat til fóðurs. En við, sem búum í sveit, þurfum ekki ráðlegginga frá Verslunarráðinu við í þessu efni. Við vitum vel, að gjöf kornmatar er eina ráðið til þess að firra felli, þegar komið er í það sárasta, ekki næst til jarðar og hey eru þrotin. Kornmatur er eina fóðrið, sem búpeningurinn þolir, þegar svo stendur á. Jeg tek þetta fram, til þess að sýna, á hve fráleitum grundvelli ástæður Verslunarráðsins gegn frv. eru bygðar.

Eins og jeg tók fram áðan, finst mjer þær brtt., sem komið hafa fram við dagskrána, óþarfar, og væri rjettast að fella þær.

Eitt af því, sem hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) fann frv. til foráttu, var það, að þjóðin væri andvíg allri einkasölu og landsverslun. En þar sem hv. þm. (B. K.) er andvígur málinu og telur sig þar tala í nafn meiri hl. þjóðarinnar, þá virðist mjer útlátalaust fyrir hann að samþ. dagskrána, svo að dómur þjóðarinnar geti komið ótvírætt í ljós.