11.03.1921
Efri deild: 20. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (2913)

29. mál, einkasala á kornvörum

Sigurður Eggerz:

Það hefir oft verið siður hjer á þingi, þegar mönnum hefir verið illa við eitthvert mál og viljað koma því fyrir kattarnef, en jafnframt viljað hlífast við aðstandendur þess, að vísa því frá með rökstuddri dagskrá.

Strax er þetta mál var borið fram hjer í hv. deild, sá jeg feigðarmörk á því, sá strax, að það mundi ekki komast gegnum deildina.

Háttv. nefnd hefir látið fylgja frv. fögur orð, og hlýtur maður að draga þá ályktun af því, að henni þyki vænt um málið. En því má málið þá ekki koma til atkvæða hjer í deildinni? Jeg fullyrði það, að ef málið væri borið undir atkvæði deildarinnar eins og það liggur fyrir, þá mundi það hljóta mjög skjótan og ákveðinn dauðdaga.

Háttv. nefnd og hæstv. atvrh. (P. J.) eru sammála um að halda því fram, að hjer sje ekki um verslunarprincip, heldur um bjargráðamál, að ræða.

Jeg skýrði afstöðu mína til málsins við 1. umr. Jeg mótmælti því þá og jeg mótmæli því enn, að þetta mál sje skoðað sem bjargráðamál. Því ef þjóðin verður sammála um, að nauðsyn beri til að hafa fyrirliggjandi kornforða til þess að afstýra felli og til bjargráða, þá má vitanlega afla hans, þó frjáls verslun sje á kornvöru. Þetta er því aðeins gylling, sem stráð er yfir frv., til þess að útvega því fylgi. Hjer er um það að ræða, hvort frjáls verslun eigi að ráða í þessu landi, eða hvort einokunin gamla eigi að setjast í hásætið.

Þess vegna eru forlög þessa máls þegar auðsjeð, ef dagskráin verður samþykt og málið lagt undir álit verslunarstjettar landsins. Jeg geri ráð fyrir, að svarið verði eitt og hið sama hjá kaupmönnum og kaupfjelögum landsins, og það þurfi ekki þess vegna að hafa fyrir því að leita eftir svarinu. Það er nokkurn veginn það sama og ef leggja ætti þá spurningu fyrir frjálsan mann, hvort hann vildi, að hann yrði hengdur, að spyrja verslunarstjettina um það, hvort hún vilji, að innleidd sje einokun, eins og hjer er um að ræða.

Nei, hjer er einungis verið að bjarga hæstv. stjórn úr vanda, einungis verið að fara krókaleiðir til þess að fóðra skoðun þingsins á þessu máli. Við höfum aldrei haft stjórn, sem tekið hefir jafnfast í einokunarstrenginn og þessi stjórn. Bæði hæstv. forsrh. (J. M.) og hæstv. fjrh. (M. G.) eru að burðast með sitt einokunarfrv. hvor, og hjer er þriðja afsprengi stjórnarinnar, sem hæstv. atvrh. (P. J.) ber fyrir brjósti.

Hjer er ekki um bjargráðamál að ræða. Hjer er um það ræða, hvort frjáls verslun eigi að ráða í landinu. Og hvers vegna þá ekki að láta þingið kveða upp sína skoðun í málinu?

Varatill. á þskj. 112 fer í þá átt að skjóta málinu eingöngu undir álit bæjar- og sveitarstjórna landsins. Jeg skal geta þess, að jeg er ekkert hræddur við svar þeirra. Og jeg skal bæta því við, að þótt álit meiri hluta þeirra hallaðist að skoðun stjórnarinnar, þá myndi jeg aldrei greiða neinu slíku einokunarfrv. atkv. En jeg er hissa á því, að ef skjóta á málinu til þjóðarinnar, hvers vegna megi þá ekki spyrja alla þjóðina. Hvers vegna eiga aðeins bæjarstjórnar- og sýslunefndarmenn að greiða atkv. um þetta mál? Ef menn eru í vafa um álit almennings á málinu, þá á að spyrja alla þjóðina. En hvernig sem hv. þdm. líta á það mál, þá er jeg fyrir mitt leyti í engum vafa um álit þjóðarinnar á málinu.