01.04.1921
Efri deild: 32. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (2925)

74. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Flm. (Björn Kristjánsson):

Hv. nefnd hefir nú látið álit sitt í ljós, og þýðir víst ekki að deila við dómarann um það; forlög málsins eru sennilega ákveðin. Vil jeg athuga ofurlítið ástæður hv. nefndar, og skal vera fáorður.

Fyrsta ástæðan, sem hv. nefnd færir gegn frv., er fjárhagsástandið. Jeg veit vel, að fjárhagur landsins er ískyggilegur nú, og gæta verður varúðar í því að binda ríkissjóði of þunga bagga á herðar. En hvað sem því líður, þá bjóst jeg ekki við, að nefndin færði þessa ástæðu móti frv., því fjárhæð sú, sem ríkissjóði er með þessu bundin á herðar, er eigi nema örlítill dropi í hafið, þar sem um jafnstóra upphæð er að ræða og fjárlögin verða að þessu sinni. En svo er það líka vitanlegt, að svo mun fara á þessu þingi, eins og jafnan áður, að þrátt fyrir allar sparnaðarheitstrengingar hv. þm. fljóti með margar fjárbænir langtum þýðingarminni og ónauðsynlegri en þessi, og það svo tugum þúsunda skifti.

Þá er það læknaskorturinn, sem nefndin segir svo mikinn, að eigi muni fást læknir í hjerað þetta. En því er svo varið, að þegar menn þrá eitthvað, þá er eins og menn geti lengi lifað á þránni, lifað í voninni um, að úr óskum sínum verði bætt. Og því er það, að jeg legg mikið upp úr því, að frv. verði samþ., þótt eigi sjeu líkindi til, að læknir fáist í hjerað þetta nú þegar. Þangað til læknir fengist gætu hjeraðsbúar notast við styrk til þess að halda lækni hjeðan úr Reykjavík.

Ef frv. þetta fellur, mun jeg fara fram á, að styrkur sá, sem þessi hjeruð hafa nú til læknisvitjunar, hækki að mun, því hann er svo lítill, að ómögulegt er að fá lækni hjeðan úr Reykjavík til þess að sinna læknisvitjunum úr þessum hreppum.

Loks er þriðja ástæða nefndarinnar sú, að fleiri hjeruð bætist við, ef þetta frv. verður samþ. Það hafa þegar komið beiðnir um fjölgun í 3–4 hjeruðum, auk þessa. En jeg vil taka það fram, að þar sem þingið veitir altaf fje til ýmislegs, sem minni þörf er á, eins og jeg gat um áðan, þá munar engu, þótt bætt sje við 4–5 læknishjeruðum alls; þótt veittar sjeu 14–20 þús. kr. til þess að vernda líf og heilsu margra landsbúa, þá verður það ekki til að ríða slig á fjárlög þessa þings.

Jeg kann því illa, að þar sem frv. þetta hefir verið samþ. hjer í deildinni áður, þá skuli eiga að skera það niður nú. Þess vegna vil jeg óska og vona, að hv. deild lofi málinu fram að ganga.

Einn hv. þm. spurði mig um það, hvort jeg vildi heldur afgr. frv. með rökstuddri dagskrá eða láta fella það. Jeg kýs heldur, ef einungis um það tvent er að ræða, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. En jeg held, að þótt þessu máli hafi verið vísað frá með rökst. dagskrá á þingunum 1917 og 1919, þá sje síður en svo ástæða til þess að láta það sæta sömu meðferð nú, því á þessum árum hafa margir merkir menn í Kjósinni dáið sökum þess, að eigi náðist til læknis, vegna læknisleysis á þessum stöðvum.

Jeg ber því það traust til hv. deildar, að hún samþ. frv. og sýni með því samkvæmni sína, svo að þessir hreppar fái að lifa í voninni um að fá lækninn í náinni framtíð.