09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (2945)

114. mál, sýsluvegasjóðir

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg hefi komið fram með brtt. á þskj. 512. Jeg álít, að það sjeu margar fleiri jarðir, sem líkt er ástatt með og þær, sem um er getið í 5. gr., að þær geta lítil eða engin not haft af sýsluvegum. Brtt. mín fer fram á að heimila slíkum jörðum undanþágu frá sýsluvegagjaldi. þetta finst mjer í fylsta máta sanngjarnt. Það er ósanngjarnt að láta jarðir, sem þannig er í sveit komið, að þær geta engin afnot af vegunum haft, greiða jafnháan vegaskatt og hinar, sem að þjóðveginum liggja. Á jeg hjer aðallega við jarðir, sem liggja við sjó fram, eða þá langt frá öllum vegum. Jeg þekki margar slíkar jarðir, svo sem í Selvogi og Ölfusi og víðar. Þessar jarðir hafa aftur á móti talsverð sjávarafnot og greiða því drjúgt til ríkissjóðs, vegna útflutningsgjalds á sjávarafurðum. Jeg skal játa það, að jeg sje mjer ekki fært að vera á móti þessu frv., eins og nú standa sakir, en verð þó að geta þess, að mjer finst þetta þungur skattur á svona fasteignir og alls ekki rjettlátur, og margir aðrir jafnskyldir og skyldari til að greiða skattinn. Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, vona, að háttv. deild sjái, að jeg hefi nokkuð til míns máls. Þótt jeg berjist hjer að nokkru leyti fyrir sjálfan mig, þá eru þó margir fleiri, sem líkt er ástatt fyrir.