09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2946)

114. mál, sýsluvegasjóðir

Frsm. (Jón Þorláksson):

Samgmn ber fram brtt. á þskj. 498, sem fer í þá átt, að einni gr. verði bætt inn í frv. Þessi brtt. er, eins og jeg vona að háttv. deild skilji, komin fram í því skyni að taka af öll tvímæli um það, að ætlast er til, að framvegis verði veitt fje úr ríkissjóði til að leggja nýja akfæra sýsluvegi, svo sem verið hefir að undanförnu. Um brtt. háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) hefir nefndin ekki haldið fund, en jeg hefi borið mig saman við nefndarmennina. Nefndin, eða meiri hl. hennar, þorir ekki að mæla með því, að þannig lagað ákvæði verði sett inn í frv. Hún þykist ekki geta sjeð það fyrir, hversu víðtækar afleiðingar þetta kunni að hafa, eða hversu margvíslegar kröfur um undanþágur kunni fram að koma. Það er svo sem auðvitað, að þessi vegaskattur getur alls ekki verið fullkomlega rjettlátur, fremur en aðrar skattaálögur. En þar sem um fasteignaskatt er að ræða, má vænta þess, að órjettur sá, sem á kann að vera í byrjun, geti horfið, er fram liða stundir, því að bæði lagfærist verð fasteignanna með tímanum og svo er vitanlega hægt að gera þær breytingar á lögunum, sem nauðsynlegar kunna að þykja. Nefndinni er ljóst, að frv. þetta er ekki alfullkomið, enda ekki ætlast til, að það standi óbreytt um aldur og æfi. En hún gerir ekki betri till. en þær, að frv. nái fram að ganga og reynslan verði látin skera úr, hverjar breytingar eru nauðsynlegar.