24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (2970)

39. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Á þinginu 1919 var samþ. þál. um að skora á stjórnina:

I. Að endurskoða löggjöf landsins um barnafræðslu og unglinga, að endurskoða alt skipulag kennaraskólans, gagnfræðaskóla, búnaðarskóla og alþýðuskóla, svo og rannsaka, hvort heppilegt og gerlegt mundi vera að stofna alþýðuskóla í einum eða fleirum landsfjórðungum, á kostnað landssjóðs að öllu eða einhverju; að undirbúa lagasetning um þessi efni svo fljótt sem því yrði við komið.

II. Að tvískifta það haust, 1919, 3 efstu bekkjum hins almenna mentaskóla, og yrði önnur deildin málfræðisdeild og sögu, en hin náttúrufræðisdeild og stærðfræðisdeild; að rannsaka, hvort eigi mundi heppilegast, að kenslugreinar í 3 neðstu bekkjum mentaskólans verði hinar sömu sem þær voru áður en núverandi skipulag komst á skólann, svo og hvort eigi skuli setja sömu inntökuskilyrði í hann og sömu einkunnir í honum sem voru áður en sú skipun var gerð, sem nú er; að gera þær breytingar á reglugerð skólans, sem nauðsynlegar reyndust samkv. niðurstöðu rannsóknarinnar.

Heimilað var fje til rannsóknar þessarar og athugunar, ef þurfa þætti.

Kenslumálaráðuneytið kvaddi sjer til aðstoðar í þessu efni þá prófessorana dr. Guðmund Finnbogason og síra Sigurð Sívertsen, með það fyrir augum, að þessir menn, sem hafa fjallað talsvert um fræðslumál æðri og lægri skóla, gætu varið miklu af tíma sínum til starfsins. Auðvitað var til þess ætlast og tekið fram, að þeir ráðguðust við þá menn, sem ætla mætti fróðasta um þau mál, hvern á sínu sviði, t. a. m. við kennara mentaskólans um þann skóla, kennara kennaraskólans um þann skóla, fræðslumálastjóra og fleiri um barnafræðslu o. s. frv.

Jeg skal taka það fram, að jeg hefi ekki ætlast til þess, að þeir sætu afarlengi yfir þessum málum. Jeg hefi ekki trú á því, að það sje alt undir því komið að sitja lengi yfir þvílíkum viðfangsefnum, og svo kostaði það ærna peninga. Jeg hefi því gert ráð fyrir, að starfinu öllu ætti að vera lokið fyrir þingið 1922.

Eftir því, sem fram kom á þinginu 1919, og reyndar á undanförnum síðustu þingum, þá mátti búast við því, að jeg ljeti vinna fyrst að endurskoðun löggjafarinnar um barnafræðslu og unglinga, yfir höfuð að því, sem um er rætt í fyrsta lið till. Á því virtist áhuginn almennari, ekki síst eftir að það var ráðið af að kosta af ríkisfje tiltölulega afarmiklu til barnafræðslu og unglinga.

En ástæðan til þess, að jeg bað hina tilkvöddu menn um að taka sem fyrst fyrir mentaskólann, var sú, að efra hluta þessa skóla var samkvæmt fyrirmælum í þál.till. skift þannig, sem þar segir, í tungumáladeild og sögu annars vegar, og náttúrufræðisdeild og stærðfræði hins vegar. En úr því að þessi breyting var á skólanum orðin, var í rauninni eðlilegt og sjálfsagt að breyta sem fyrst skipulagi skólans að öðru leyti, ef breyta átti í bráð.

Að vísu virðist þingsályktunin ekki ætlast til þess, að breyting á skipulagi þessa skóla væri borin undir þingið; aðeins er stjórninni í ályktuninni gefin bending um að breyta reglugerð skólans, þannig að skólinn komist í líkt lag sem hann var fyrir 1904. Þannig verður að skilja afstöðu Nd., eða að minsta kosti þáverandi mentamálanefndar þeirrar deildar. Framsögumaður mentamálanefndar Ed. sagðist aftur á móti ekki vilja ýta undir þessa breytingu, taka upp grísku og latinumál í líkum mæli og áður, þótt rjett sje, að það sje athugað.

Það er auðvitað ekki tilgangurinn, að hið háa Alþingi fari að samþykkja reglugerð fyrir skólann eða semja. Það verður auðvitað að vera stjórnarathöfn. Og hið háa Alþingi hefði ekkert getað að því fundið, þótt kenslumálastjórnin hefði gert þá breytingu á skólanum, sem bent er til í ályktuninni, fært skólann aftur í sitt gamla far og slitið þar með sambandinu við gagnfræðaskólann á Akureyri. En jeg er ekki alveg viss um, að hv. þm., sem samþyktu þetta í þál., hafi athugað það. Það eru einatt bornar fram þál.till. og samþ. býsna íhugunarlítið.

Auk þessa þurfti að leita til Alþingis um lagafyrirmæli, bæði vegna þeirrar breytingar, sem þegar er á orðin, og fyrirhugaðra breytinga, ef á eiga að komust að meira eða minna leyti. Það verður óhjákvæmilegt að bæta við einum til tveimur föstum kennurum við skólann, vegna tvískiftingarinnar á efra hluta hans. Þá er rjett, að það sje beint lögákveðið, að taka skuli skólagjald, ef svo á að vera. Að vísu er nú lagaheimild til þess, en sú heimild hefir ekki verið notuð enn, vegna þess, meðal annars, að námskostnaðurinn hefir verið ærinn undanfarið án þess. Jeg er þeirrar skoðunar, að skólagjald eigi að taka og nota það sjerstaklega fyrir utanbæjarnemendur, einkum þá, er ætla mætti að hefðu verri eða örðugri afstöðu vegna þess, að slitið var sambandinu við mentaskólann. Þá er heimildin til að ákveða ýmislegt með reglugerð, t. a. m. skyldu kennara. Nú er t. d. talið, að fastir kennarar sjeu eigi skyldir án sjerstakrar borgunar að kenna meira en 24 kl.st. á viku. Sumstaðar erlendis a. m. k. er heimtað 27–30 kl.st. á viku, og þar er þó sumarleyfi miklu styttra. Það má vel vera, að það hafi verið ástæða til að hafa þetta svo hjer áður. En nú, þegar launakjörin eru orðin sæmileg, er ástæða til að gera meiri kröfu til vinnu. Þetta á viðar við, t. d. við suma aðra skóla.

Jeg skal annars ekki fara frekar út í einstök atriði frv.

Nú, þótt það sje ekki hugsunin, að Alþingi fari að semja skólareglugerð, þá eru háttv. mentamálanefndir svo skipaðar, að líklegt er, að þær muni gefa góðar bendingar mentamálastjórn landsins um samning væntanlegrar reglugerðar, um aðalatriði.

Af því að það er tekið upp í lagafrv., að skólinn skuli vera óskiftur undirbúningsskóli, sjerstaklega undir háskólann, sem jeg tel rjett, þótt það geti verið reglugerðaratriði, þá er það beint verkefni nefndanna að segja álit sitt um þetta.

Þá er hitt, sem þegar var til umr. á þinginu 1919, hvort aftur ætti að taka upp grísku að einhverju leyti og latnesku í meira mæli. Eða hverjar ættu að vera aðalkenslugreinarnar. Tillögur utanþingsnefndarinnar ganga í þá átt, að þetta eigi að vera íslenska, latneska og stærðfræði. Jeg geri ráð fyrir, að þetta sje allalment álit skólamanna, eða breytingin frá 1904 hafi verið til hins verra.

Er það fært til, að stúdentar, sem komið hafa frá mentaskólanum, eða eru útskrifaðir eftir þeirri reglugerð, sem nú er í gildi, standi ekki á eins háu mentunarstigi eins og stúdentar eftir gamla laginu, sjeu ekki eins hæfir til að taka á móti háskólamentun eins og hinir. Jeg skal nú ekki fara langt inn á þetta mál. Jeg býst við, að það sje örðugt um að dæma fyrir leikmenn um öll þessi mál. Og þótt jeg hafi allmikið haft með stjórn fræðslumála landsins að gera, bæði fyr og síðar, þá er jeg þó ekki annað en leikmaður í þessum efnum.

Mjer sýnist að vísu dálítið varhugavert að leggja ofmikið upp úr þeirri rannsókn, sem farið hefir fram um samanburðinn á gamla og nýja laginu, sjerstaklega hjer, bæði af því, að rannsóknarefnið er fremur lítið, og svo má vera, að dómur skólamanna, sjerstaklega þeirra, sem voru undir öðrum reglum, sje ekki alveg hlutlaus. Orðtækið laudator temporis acti á ekki einungis við löngu liðinn tíma. Það er ekki örgrant um, að mönnum, sem komnir eru yfir miðjan aldur, finnist heldur betra á stundum það lag, sem var í þeirra ungdæmi. Má ske ekki síst, að það eigi sjer stað um endurminningarnar frá lærða skólanum, að öll skipun standi þar í betra og bjartara ljósi en mönnum finst nú vera. Ekki ósennilegt, að þetta geti haft einhver áhrif. En í svona sjerstöku efni, sem skipun mentaskólans og sambands hans við háskólann, eru ekki nein tiltök að fara eftir öðru en því, sem þeim kemur mest saman um, sem um fræðslumál fjalla, aðallega hjer kennarar mentaskólans og háskólans. Og jeg held, að skólamönnum, ekki einungis hjer, heldur og annarsstaðar á Norðurlöndum, komi yfirleitt saman um, að heppilegra sje að hverfa aftur, að nokkru að minsta kosti, í gamla farið.

Mjer þykir líklegt, að mjög bráðlega komi till. um kennaraskólann, og vona jeg, að hv. mentmn. taki þær til athugunar, þótt sennilega verði ekki tími til að bera þær fram í stjórnarfrumvarpi.