04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í C-deild Alþingistíðinda. (2975)

39. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Það hefir verið talað mikið um það, hvernig þetta mál væri undirbúið, og hefir verið rjett frá því skýrt af hálfu hv. frsm. meiri hl. (M. J.). Þó vil jeg geta þess, að upptök þess eru dálítið fyr en um hefir verið talað. Jeg hygg, að óskir um að láta lærða skólann komast aftur í það horf, sem hann var í áður en hin núgildandi reglugerð komst á, hafi komið frá Stúdentafjelagi Reykjavíkur, og mjer er sagt, að menn þar hafi einróma verið á því máli, að þetta ætti að gera. Síðan kom málið fyrir Alþingi, og var afgr. þaðan með áskorun til stjórnarinnar í þá átt, að koma skólanum í gamla horfið. Að vísu kemur þetta ekki beint fram í þál.till., en það kom skýrt fram við umr. málsins, t. d. hjá hv. þm. Dala. (B. J.). Að vísu var talað um, að rannsaka ætti málið, en ótvírætt bent í þá átt, að rannsóknin mundi komast að þeirri niðurstöðu, að skólinn ætti að vera með sama fyrirkomulagi og áður. Eftir nákvæma rannsókn komust svo ráðunautar stjórnarinnar alveg að sömu niðurstöðu, og lögðu málið í því formi fyrir þingið.

Jeg verð nú að segja það, að jeg held ekki, að þetta mál sje svo vaxið, að rjett sje að leggja það undir þjóðaratkvæði. Það er þegar nógu langt gengið, að bera það undir Alþingi, því að það heyrir eiginlega fremur undir stjórnarráðstafanir en undir Alþingi. En að það er borið undir Alþingi kemur af því sambandi, sem er á milli mentaskólans í Reykjavík og gagnfræðaskólans á Akureyri. En í meðferð málsins 1919 kom það ekki í ljós, að ætlast væri til, að málið væri borið undir Alþingi.

Að öðru leyti hefi jeg heyrt í dag, að undirbúningur málsins væri eigi nógu langur, og að mentamálanefndarálitið nægði ekki. Jeg hefi oft sagt það áður, að jeg hefi ekki trú á því, að mikið mundi græðast á því, þótt setið væri lengi yfir þessu máli; skoðanir manna mundu vera jafnskiftar um það eftir sem áður.

Annars er jeg samdóma meiri hluta nefndarinnar, og ætla mjer ekki að fara að taka upp það, sem hv. frsm. (M. J.) hennar hefir sagt. Hitt er auðvitað, að eins og til málsins er stofnað, þá má stjórninni standa á sama, þótt því verði skotið á frest. Það er fram komið eftir kröfu þingsins, og það er því á þingsins valdi, hver meðferð verður höfð á því.

Jeg vildi þó skjóta því til háttv. minni hl., hvort ekki muni rjettara að leyfa atkvgr. um brtt. á undan rökstuddu dagskránni, því ef það kemur fram aftur, þá mundi það geta gagnað að vita, hvort þessar brtt. þættu aðgengilegar af hv. deild eða ekki. Það getur auðvitað verið, að málið upplýsist eitthvað, t. d. við skrif um það í blöðunum, en að nokkurt gagn sje í því að bera það undir þjóðina, því hefi jeg ekki trú á. Og að því er snertir andróður stúdenta gegn því, þá hefir það nú oft sýnt sig, hvernig þeir hafa breytt skoðunum sínum. Jeg er ekkert að lasta þá, það sje fjarri mjer; aðeins held jeg, að ýms mál sjeu oft ekki gerhugsuð hjá þeim.

Jeg skal þá minnast nokkrum orðum á brtt. Jeg get ekki annað sjeð en að þær sjeu sumar til bóta, og sumar að minsta kosti skaðlausar. Jeg skál samt leyfa mjer að segja það, að jeg get vel fallist á, að þetta próf sje fremur reglugerðarákvæði. Aftur á móti skal jeg taka það fram, sem hv. frsm. meiri hl. (M. J.) sagði og skýrði mjög vel, að ekki sje heppilegt, að menn af mismunandi aldri sjeu í sama bekk. Þetta held jeg að sje alveg rjett, en vel getur það auðvitað komið fyrir, að ástæða þyki til að veita undanþágu, þó að slíkt ætti að vera sem allra sjaldnast, en að öðru leyti er sjálfsagt að hafa aldurstakmark.

Jeg er alveg samdóma því, að eitthvað sje lært í latínu til undirbúnings. Á þann hátt verður betra samræmi í náminu, og jeg hygg ekki, að það veitist svo erfitt að fá einhverja tilsögn upp til sveita. — Hins vegar er jeg ekki alveg samdóma hv. meiri hl. um það, að varhugavert sje að gera embættispróf að skilyrði fyrir kennarastöðu. Það má auðvitað hugsa sjer undanþágu, en hún ætti þó helst ekki að eiga sjer stað. Um það, hvort kennara sje skylt að láta af embætti 65 ára, það legg jeg enga áherslu á; jeg held, að í framkvæmdinni geri brtt. ekki mikinn glundroða. Jeg er alveg samdóma háttv. frsm. meiri hl. (M. J.), um sjerstöðu hans til skólaráðs. Jeg held, að slíkt sje hollara fyrir skólann en að eiga alt undir úrskurði ráðherranna.

Svo held jeg, að jeg finni ekki ástæðu til að tala neitt frekar um þessar brtt. Komi eitthvað fram í umr., sem vert er athugunar. Þá hygg jeg meiri hl. mæta vel trúandi til að standa fyrir svörum.