04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (2976)

39. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Eiríkur Einarsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. minni hl. mentmn. með fyrirvara, og vildi jeg gera grein fyrir aðstöðu minni þar.

Það er sameiginlegt með mjer og hv. 1. þm. N.-M., frsm. minni hl., (Þorst. J.), að við viljum hvorugur að mentaskólafrv. nái fram að ganga á þessi þingi. Við teljum báðir, að með afgreiðslu nú yrði það mál tekið út úr eðlilegu samhengi við skólamál landsins að öðru leyti, sem eru til rannsóknar í höndum milliþinganefndar. Þótt hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar (M. J.) hefði þau orð í ræðu sinni áðan, að þar sem sjeð væri, að mentaskólinn ætti að takast út úr skólakerfinu eftir áliti ráðunauta stjórnarinnar í mentamálum, væri ekki eftir neinu að bíða. Okkur minni hl. mönnum nefndarinnar stæði þá nær að leggja til, að málið yrði fremur felt en því frestað.

En jeg er annarar skoðunar. Þótt milliþinganefndin vilji taka mentaskólann út úr kerfinu, er enganveginn þar með sagt, að ekki geti margt komið í ljós í áliti hennar um skóla og mentamálin að öðru leyti, er geti orðið til leiðbeiningar í samanburðinum á mentaskólanum og hinum öðrum skólum. Jeg get líka tekið undir það með hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), að flestallar tillögur, sem liggja hjer fyrir frá mentamálanefnd um hinn lærða skóla, eru þannig sniðnar, að við getum verið þeim samþ., þótt við hins vegar viljum ekki, að málið fái afgreiðslu á þessu þingi. Hæstv. forsrh. (J. M.) gat þess, að málið hefði lítið að gera til þjóðaratkv.; það stæði nær, eða ætti að nægja, að þingið athugaði það. Jeg er í rauninni á sama máli um það, að þjóðaratkvæði á hjer ekki að þurfa, en hinsvegar mundi þinginu aukast skilningur og yfirlit, ef álit það, sem von er á um öll skólamálin, væri komið til samanburðar áður en útkljáð er um fyrirkomulag mentaskólans.

Um alt þetta geri jeg ráð fyrir, að jeg og háttv. frsm. minni hl. nefndarinnar (Þorst. J.) sjeum samdóma, en ef lengra á að rekja, býst jeg við, að komi fram ágreiningur.

Jeg er í miklum vafa um, hvort rjett sje að auka latinunámið eða ekki. Tel jeg vafalaust, að hún hafi mikið mentunargildi, og ræð jeg það ekki síst af frásögn og kynningu við ýmsa ágæta menn, er hafa talið hana til hinna bestu mentunargreina, og veit jeg af afbragðs íslenskumönnum, er hafa þakkað latínunni, ásamt móðurmálinu, hvernig þeir hafa kunnað að fara með það. Jeg veit það vel, að latínan verður ekki látin í askana, en um það gæti einnig verið álitamál, þótt til væri nefnt sumt af því, sem kallað er „gagnfræði“. Ef latínan er vel til þess fallin að kenna rökrjetta hugsun, skipulega framsetningu og fegrun ritmáls, og sje hún auk þess nauðsynleg undirstaða til náms þeirra tungna, er af hennar rótum eru runnar, þá verð jeg að játa það, að hún á mikinn rjett á sjer í lærða skólanum, þótt um hitt megi deila, hvað megi kaupa hana dýru verði. Um það þori jeg ekkert að segja, og síst á meðan jeg veit ekki, hvað við verðum að leggja í sölurnar. Auk þess er altaf á það að líta, að meira er komið undir kennurunum en kenslugreinunum.

Jeg er því enn sem komið er óráðinn í því, hvort auka skuli latínunám í lærða skólanum, og hvort gerlegt sje að færa hann í hið fyrra horf og hafa hann óskiftan latínuskóla.

Úrslitaskoðun mín um þetta mál mun mikið fara eftir því, hvað samrýmanlegt er við aðra skóla og hver bönd þetta myndi leggja á landsmenn, til að einskorða lærða mentun við Reykjavík. Jeg tel t. d. enga fjarstæðu, þótt stungið sje upp á því sem tiltækilegu — jeg vil alls ekki segja æskilegu — að latína skuli einnig kend í sjerstakri deild Akureyrarskólans. Ef þetta þætti vel gerlegt, rannsókn skólamálanna leiddi það í ljós, og ef yfir höfuð aukin latínukensla í mentaskólanum gerði landsmönnum lítið erfiðara fyrir eftir en áður að láta unglinga, sem eiga að ganga „lærða veginn“, stunda nám sitt þar, sem hentast þykir, annarsstaðar en í Reykjavík, þá vil jeg síst verða til þess að andæfa latínunni. En ef hins vegar það sæist í meðförunum, að óskiftur latínuskóli hefði þá nauðsyn í för með sjer, að ekki yrði í önnur hús að venda til námsins en til höfuðstaðarins, þá geri jeg ráð fyrir, að mjer þætti latínan, svo ágæt sem hún er, ekki leggjandi í sölurnar. Er á það tvent að líta, að eins og nú er komið með alt verðlag og dvalarkostnað í Reykjavík, má svo segja, að ógerlegt sje fyrir aðra en efnamenn að kosta börn sin til náms í Reykjavík. Vetrardvöl þar kostar nú á 3. þús. kr., og jafnframt hlýtur það að koma til álita, sem mikilvægt atriði, að margir munu telja börn sín í betra öryggi annarsstaðar en meðal ókunnugra í Reykjavík, slíkt sukkorð, sem nú fer af höfuðstaðnum, og veit jeg, að engan mun hneyksla, þótt þetta sje sagt.

Hjer kemur það einnig til greina, og veldur því, að mjer finst, ekki svo mjög aðkallandi að afgreiða nú frv. um mentaskólann, að annað, sem lýtur að mentamálum, og þjóðin á miklu meira undir, er ekki komið til athugunar fyrir þingið nje endurbóta. En það er barna- og unglingafræðslan. Hefir um hana sannast, með þeim breytingum, er hún hefir verið látin taka á síðustu árum eftir útlendu sniði, að við erum fúsari til að taka upp ýmsa nýbreytni erlenda, ómelta og hugsunarlaust, en gá fyrst og fremst að, hvað okkur hentar, miðað við hið sjerstaka ásigkomulag lands og þjóðar. Á þetta einnig við um mentamálin. — Undirstöðuatriði mentamálanna er barnafræðslan, og henni verður því fyrst að sinna. Hvort sem litið er til skóla- eða fræðsluhjeraða, þá er barnafræðslunni mjög ábótavant og í afturför, enda er það eðlilegt, þegar ekki verður betur sjeð, en sá eldur, er þjóðin varðveitti dýrastan á arni sínum, sje nú nærri sloknaður. En þar á jeg við kenslu og mentun á sveitaheimilunum. Þennan eld þarf aftur að glæða, ef vel á að fara. Svo má tala um latínuskólann á eftir.

Að lokum vil jeg geta þess, að þótt ekki yrði breytt um fyrirkomulag mentaskólans, álít jeg, að hin almenna gagnfræðamentun Reykvíkinga og annara nálægra, eigi þar ekki fram að fara. Lærði skólinn á að njóta þeirrar friðhelgi, að slíku verði ekki blandað saman.