04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í C-deild Alþingistíðinda. (2978)

39. mál, lærði skólinn í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Jónsson):

Þegar hv. frsm. meiri hl. (M. J.) byrjaði ræðu sína, þá bjóst jeg við, að hann myndi reiða sleggjuna hátt og dauðrota fluguna, sem hefir verið að sveima um deildina, — en það varð lítið úr högginu; sleggjan lá að mestu óhreyfð, og flugan er ódrepin enn. (M. J.: Jeg vildi eftirláta háttv. minni hl. nefndarinnar að nota sleggjuna). Flugur nota ekki sleggju. Jeg man annars ekki eftir, að hv. frsm. (M. J.) kæmi fram með nein ný rök til að hrekja með málstað minni hl. Þó eru örfáir drættir í máli hans, sem jeg vildi minnast lítið eitt á.

Háttv. þm. (M. J.) talaði um, að sú reynsla, sem væri orðin á þeim stúdentum, sem útskrifast hefðu eftir nýju reglugerðinni, væri alt annað en glæsileg. Jeg er ekki svo vel inn í því efni, að jeg geti dæmt um það af eigin reynslu. En jeg verð að halda því fram, að ekki verði sjeð af þeim einkunnartöflum, sem fram hafa verið færðar, að þessir stúdentar standi þeim nokkuð að baki, sem hafa útskrifast eftir gömlu reglugerðinni. Jeg hefi ekki dvalið í þessum skóla, hvorki fyr nje síðar, og hefi því ekki átt kost á að kynnast þar, hve hæfir stúdentarnir væru, bæði áður og nú. Jeg vil geta um það, að jeg rak mig á fyrir ekki alllöngu síðan ritgerð eftir merkan skólamann, og hann kemst þar svo að orði á einum stað, að ekki muni takast að benda á, að eftir nýju reglugerðinni hafi útskrifast önnur eins andleg dauðyfli og átt hafi sjer stað eftir þeirri gömlu.

Annars geri jeg ráð fyrir því, að aldrei verði loku skotið fyrir, að úr skólanum útskrifist nokkuð misjafnir menn, hversu vel sem reglugerðin er annars úr garði gerð.

Þá tók háttv. frsm. meiri hl. (M. J.) það fram, að sumir kennarar mentaskólans væru samþykkir þeirri breytingu, sem hjer er um að ræða. Eftir því, sem fram hefir komið þar, þá verð jeg að telja það stórmikið vafamál, að svo sje. Aðeins 3 þeirra hafa látið uppi álit sitt um þetta og þeir eru allir ósamþykkir þeim aðalbreytingum, sem frv. gerir á skólanum. Nú geri jeg ráð fyrir, að ef hinir kennararnir hefðu verið sammála nefndinni, þá hefðu þeir látið í ljós skoðun sína, þar sem málið hlýtur að vera þeim áhugamál, en það hafa þeir ekki gert. Verður því tæplaga annað sjeð en að þessi staðhæfing hv. þm. (M. J.) um skoðanir kennaranna sje sögð út í bláinn.

Háttv. frsm. meiri hl. (M. J.) sagði, að orsökin til þess, að á síðustu árum hefðu svo margir hætt í gagnfræðadeildinni, væri sú fjárhagskreppa, sem styrjöldin hefði bakað mönnum. En jeg held, að orsökin sje fremur sú, að menn eru nú komnir upp á lagið með að nota gagnfræðaskólann. Það er alls ekki hægt að sýna fram á það með rökum, að aðstaða manna efnalega hafi verið nokkru verri á stríðsárunum en áður, og getur þetta því ekki verið orsökin, sem hv. þm. heldur fram.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. (M. J.), að sjer hefði aldrei dottið í hug, að þeir tímar komi ekki, sem þessu verði öllu kollvarpað á, sem nú er gert. Ef hann nú heldur, eins og jeg, að hjer sje aðeins verið að tjalda til einnar nætur, ef þessi breyting á skólanum, sem nú er rædd, nær að ganga fram, en er hins vegar sammála mjer um, að tíðar breytingar sjeu óheppilegar, þá á jeg bágt með að skilja það, hvers vegna hann vill þá láta þessar breytingar verða að lögum.

Hann sagði, að andstaðan gegn þessu blossaði mest upp fyrst, en myndi svo brátt lægja, þegar frá drægi. — Það er svo venjulega með flestar nýjar stefnur. — En þá ætti hann líka að vera sammála mjer um það, að rjett sje að láta málið bíða, svo menn fái að átta sig á því. Og ef hann heldur að þessar breytingar vinni fylgi við biðina, þá sje jeg ekki betur, en að hann ætti að geta gengið inn á dagskrá okkar, minni hlutans.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. (M. J.), að líkindi væru til þess, að óþarflega mikið af vísindanámi hefði verið troðið inn í gagnfræðadeildina á síðustu árum. Jeg skal ekki fara út í langa deilu við hv. þm. (M. J.) um þetta, en jeg vil þó taka það fram, að jeg trúi vart, að svo mikil brögð sjeu að því, að undan því þurfi að kvarta. Jeg geri ráð fyrir, að flest af því, sem þar er kent, hafi komið nemendunum að einhverju haldi. — Hv. þm. (M. J.) sagði, að æskilegt væri, að það sæist einhver sýnilegur árangur af því, sem þeir hefðu lært. — Jeg verð að játa, að þegar jeg heyrði þetta, duttu mjer í hug orð gömlu mannanna, að bókvitið verði ekki látið í askana. Jeg geri annars ráð fyrir, að flestir, sem vit hafa á þessum málum, sjeu sammála mjer um það, að mörgu námi sje þannig farið, að ekki náist við það sýnilegur árangur, heldur ósýnilegur, sem er innifalinn í því að treysta og fullkomna gáfur og skapgerð mannsins.

Háttv. þm. (M. J.) tók það hjer sem dæmi, að það væri kend of mikil málfræði í gagnfræðaskólanum og menn þar þvældu óþarflega mikið í henni. — Jeg hefi jafnan litið svo á, að fátt þroskaði meir en einmitt málfræðisnám. Auðgar það bæði einkarvel námsgáfur manna og veitir auk þess mikla æfingu í því að hugsa rökrjett — en þess mun flestum þörf, hvað sem þeir annars taka sjer fyrir hendur í lífinu.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. (M. J.), að nauðsynlegt væri, að úrvalsmenn einir gengju lærða veginn. Jeg skal játa, að þetta væri mjög æskilegt, bara ef hægt væri að koma því við. En hvar er mælikvarðinn, sem nota yrði þá á gáfur manna og mannkosti? Háttv. frsm. (M. J.) mun væntanlega benda á prófin. En jeg vil þá fullyrða það, að einkunnir við próf verði altaf fremur tvísýnn mælikvarði. Fyrst og fremst tekst kennurum oft nokkuð misjafnlega að halda þar á vogaskálum rjettlætisins, og auk þess er óvist, að bestu námsmennirnir verði bestu mennirnir, þegar út í lífið kemur. Fer þetta mjög eftir lundarfari manna og hve fljótir menn eru að þroskast, og svo eftir því, hvort menn gefa sig óskifta við náminu eða ekki. Detta mjer í hug frægustu skáld Norðmanna, Björnson og Ibsen. Þeir þóttu ávalt heldur slakir námsmenn meðan þeir voru í skóla, en þó býst jeg við, að enginn haldi því nú fram, að þeir hafi til einskis verið þar. Hitt hefi jeg þar með aldrei sagt, að meiri líkur sjeu til, að litlir námsmenn skari fram úr seinna í lífinu, heldur en þeir, sem duglegir eru við námið.

Útskýringu hv. frsm. meiri hl. (M. J.) á þjóðsögunni „Ása, Signý og Helga“ þarf jeg fáu að svara. En jeg skil þá sögu nokkuð öðruvísi en hv. þm. — Ása og Signý eru þeir duglegu námsmenn og eftirlæti foreldranna, settar til náms í æsku, vitanlega í lærðan skóla, ef efni leyfa. Af dálætinu skapast hjá þeim óhóflega mikið sjálfsálit, sem svo verður þeim að fótakefli, þegar út í lífið kemur, af því að upplagið er ekki að sama skapi gott. En Helga er seinþroska unglingurinn, sem lætur lítið yfir sjer og á fremur litlu atlæti að fagna af foreldrunum. Hún er ekki látin ganga í skóla í æsku, síst í lærðan skóla, og fær ekki viðurkenningu fyr en út í lifið kemur og hún hefir sjálf rutt sjer braut.

Þá sagði hv. þm. (M. J.), að það væri vanalega afráðið snemma, hvort unglingurinn gengi lærða veginn eða ekki. Jeg verð þá að halda því fram, að svo sje ekki, nema þegar foreldrarnir ráða þessu fyrir hönd barna sinna. En það tel jeg einmitt mjög viðsjárvert, að svo sje, því í þessu efni ættu unglingarnir að ráða mestu. Og jeg get ekki fallið frá því, að þeim mun eldri sem hann verður, þeim mun færari er hann um að finna, hvert hugur stefnir, og ákveða eftir því æfistarf sitt.

Þá hjelt hv. frsm. (M. J.) því fram, að meiri aðsókn myndi verða að mentaskólanum, ef þessu fyrirkomulagi yrði haldið, sem nú er, en ef því yrði breytt, og hann bætti því við, að fjölgunin í skólanum hefði aldrei verið eins mikil og nú síðustu árin. Það er rjett, að þeim fjölgar, sem ganga í skólann. Reykvíkingum er altaf að fjölga í þessum skóla, sem eðlilegt er, því að fólkinu fjölgar hvergi á landinu eins ört og hjer. Auk þess hefir heimsstyrjöldin haft nokkur áhrif á þetta.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. (M. J.), að Austfirðingar gætu eins vel sótt skóla hingað og til Akureyrar. Um þetta ætla jeg, að jeg geti talað af eins mikilli þekkingu og hv. þm. (M. J.). Þótt jeg hafi ekki neina skýrslu um verðlagsmun á þessum tveim stöðum, þá get jeg fullyrt það, að það munar mjög miklu, hvað landbúnaðarafurðir eru ódýrari þar en hjer, eins og lætur að líkindum, þar sem bærinn stendur í svo blómlegri sveit sem Eyjafjörðurinn er, og auk þess margfalt fólksfærri en Reykjavík. Að vísu geta landbúnaðarafurðir lækkað hjer með tímanum, þegar járnbraut verður lögð um Suðurlandsundirlendið, en þó hljóta aðflutningar altaf að verða dýrari hjer en á Akureyri.

Hv. þm. (M. J.) tók það fram í því sambandi, að ódýrara myndi vera að flytja gagnfræðaskólann upp í sveit en að láta hann vera á Akureyri. Jeg er nú alls ekki viss um, að svo sje, en hitt getur verið, að heppilegra hefði verið að flytja skólann aldrei þangað frá Möðruvöllum, — en það verður ekki látið ógert, sem þegar er gert.

Þá gat hv. frsm. meiri hl. (M. J.) þess, að Danir kvörtuðu undan því sama og eldri menn hjer, að stúdentar sjeu ekki eins vel að sjer nú og áður fyr. Mjer þykir líklegt, að þar sje þetta af svipuðum rótum runnið og hjer. Þetta er annars ekkert spánnýtt, að gömlu mennirnir kalli ekki alt ömmu sína að því er snertir hina yngri menn, og þykist í hvívetna hafa staðið þeim framar, þegar þeir voru ungir. Hjer er um alþektan veikleika að ræða, sem á alþýðumáli hefir verið kallaður „karlagrobb“. Geri jeg ráð fyrir, að þau ellimerki sjeu engu ótíðari hjá Dönum en hjá oss. Jeg skal taka það fram, að það fer fjarri því, að jeg hafi haft hv. frsm. meiri hl. (M. J.) í huga, er jeg mintist á þetta, en hitt verð jeg að játa, að jeg heyrði rjett áðan rödd hjer í deildinni, sem minti mig átakanlega á þennan sjúkdóm og einkenni hans.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. (M. J.), að enginn væri spámaður í sínu föðurlandi, og átti þar við móðurmálið og kenslu þess í skólunum. En jeg verð að segja, að það sje illa, ef svo fer. Því ef Íslendingar hætta að hlýða á þann spámann og glata þar með tungu sinni, þá hætta þeir um leið að vera þjóð. En jeg veit, að Íslendingar muni einlægt hlusta á þennan spámann. En mig undrar að heyra þá vantrú á krafti spámanns þessa berast frá vörum háskólakennara í guðfræði.

Jeg man þá ekki fleira, sem jeg þarf að svara í ræðu háttv. frsm. meiri hl. (M. J.)

Þá vil jeg minnast á nokkur atriði í ræðu hæstv. forsrh. (J. M.). Hann sagðist aldrei hafa búist við, að þetta mál yrði borið undir þjóðaratkvæði. Jeg hefi heldur aldrei sagt neitt í þá átt. Hitt er annað mál, að jeg vil, að þjóðin fái að ræða málið, fái tíma og tækifæri til þess að gera sjer ofurlitla grein fyrir því, hvernig fara á og farið er með öll þessi mál í heild sinni. Nú er þegar tekið að ræða málið í blöðunum, og því verður vafalaust haldið áfram. Þetta virðist mjer ekki vera sama og bera málið undir þjóðaratkvæði.

Hann sagði enn fremur, að málið mundi ekki græða á biðinni. Um það þýðir vitanlega ekki að deila. Jeg er sannfærður um, að það muni græða við biðina. Að minsta kosti eru þá meiri líkur til, að hið væntanlega skipulag fengi að standa lengur, ef það er vandlegar athugað fyrirfram. Því að það má hv. meiri hluti vita, að eigi þagna þær raddir, sem óánægðar eru með tillögur hans, þótt honum tækist að berja nú fram mál sitt til sigurs, af meira kappi en forsjá. Og kynni þá svo að fara, að brátt þyrfti aftur að breyta. En jeg tel tíðar breytingar á fyrirkomulagi skólamálanna eigi æskilegar, ef hægt er að komast hjá þeim.

Þá kvað hann málið borið fram í því formi, sem þingið hefði óskað. Það er nú satt, að vísu. Þál. frá 1919 var ekki heppilega orðuð. Hún var flutt af hv. þm. Dala. (B. J.) og lituð af skoðunum hans. Þó var nú ekki kveðið ríkar að orði en svo, að stjórnin skyldi athuga, „hvort eigi væri heppilegast“, að skólinn væri settur aftur í gamla farið. Og vitanlega lá aðaláherslan á rannsókninni.

Þá sagði hæstv. forsrh. (J. M.), að Stúdentafjelagið hefði samþykt tillögu í sömu átt og þetta frv. gengur. Það vill nú svo vel til, að jeg hefi átt kost á að sjá útdrátt úr fundargerð þess fundar, sem hann á við. Þar er sagt, að 10–20 manns hafi verið á fundi, margir hafi fundið núverandi skipulagi skólans til foráttu, og að engin ályktun hafi verið gerð. Mjer er sagt, að háttv. þm. Dala. (B. J.) hafi boðað til fundarins og varið gamla fyrirkomulagið. Nú er það alkunna, að hv. þm. Dala. (B. J.) er vel máli farinn, og hefði þá ekki verið neitt undur, þótt honum hefði tekist að snúa meiri hlutanum af þessum 10–20 manns.

Hæstv. forsrh. (J. M.) óskaði þess, að við 1. þm. Árn. (E. E.) tækjum aftur dagskrá okkar til 3. umr., svo að brtt. nefndarinnar gætu komið til atkvæða. Jeg hefði nú ekkert á móti því, að þær kæmu til atkv. Og jeg veit ekki, hvort hæstv. forseti (B. Sv.) getur borið brtt. upp fyrst og dagskrána svo á eftir, því dagskrána getum við ekki tekið aftur, því að ef hún verður feld og frv. samþ., þá þarf jeg að koma fram með brtt. við 3. umr. um það atriði, er mig skilur aðallega frá hv. meðnefndarmönnum mínum.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hjelt hjer eina af dómsdagsprjedikunum sínum. Hann byrjaði á því að lýsa gutlkenslu þeirri, sem verið hefði í skólanum nú á seinni árum. Mjer virðist nú, að kenslan hefði getað verið góð eða vond, hvernig sem reglugerðin var. Þessum skeytum er því eingöngu beint að kennurum skólans. Og þó tók hann það fram síðar í ræðunni, að þeir væru mætir menn og ágætir kennarar. Svona er þá samkvæmnin og rökfestan hjá þessum gamla mentamanni. Hann er þó úr „gamla skólanum“.

Þá undraðist hv. þm. (S. St.), að jeg skyldi ekki geta orðið samferða háttv. meiri hl. um það að afgreiða frv., þar sem jeg sje sammála flestum brtt., er hann ber fram. Jeg tók nú fram í fyrri ræðu minni, að jeg væri að mestu leyti samþykkur brtt. öllum, að einni undanskilinni. En sú eina brtt. er einmitt aðalatriðið í málinu. Það er sem sje spurningin um það, hvort auka beri latínunámið í skólanum eða ekki. Þetta er annað meginatriði frv., en af því leiðir hitt meginatriðið, hvort skólann á að slita út úr samhengi og sambandi við gagnfræðaskólana, hvort eigi að rifa skólann alveg út úr skólakerfi landsins og láta hann standa einstakan, eins og eftirgerðan forngrip, með latínuna, margúrelta og dauða, sem einkennismark. Þegar jeg hafði lýst því, að jeg væri mótfallinn breytingum þeim, sem frv. gerir um þessi tvö meginatriði, þá hjelt jeg nú satt að segja, að jafn-„mentaður“ maður og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) þyrfti ekki að bera fram þá barnalegu spurningu, hví jeg hefði ekki verið alveg sammála hv. meiri hl., þótt jeg gæti fallist á nokkrar smávægilegar brtt., sem eru þó heldur til bóta, ef vitleysan á að sigra. Jeg hjelt, að hv. þdm. gætu greint þar á milli aðalatriðis og aukaatriðis. Og stærsta atriðið er, hvort á að slíta skólann út úr skólakerfi landsins. Um það greiða hv. þdm. atkv., þá er þeir greiða atkv. um dagskrána.

Þá sagði hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að kjósendur mundu ekki leggja mikinn skerf til málsins, þótt það biði. Getur verið, að nokkrir ljetu sig málið litlu skifta, en þó treysti jeg flestum kjósendum til þess að gera sjer ljós aðalatriði málsins, jafnvel eins vel og hv. þm. (S. St.), eftir ræðu hans að dæma. Og mjer þótti skrítið að heyra þessi ummæli úr þessari átt. Jeg held, að formaður allshn. (S. St.) hafi með þessu höggið óþarflega nærri allshn. og starfi hennar. Jeg man ekki betur en að hún hafi lagt til, að frv. um varnir gegn berklaveiki yrði skotið undir atkvæði allra sýslunefnda. Sýslunefndirnar áttu að endurskoða starf berklaveikisnefndarinnar. Ætli hv. þm. (S. St.) fái nú marga til að trúa því, að sýslunefndir sjeu meiri sjerfræðingar í berklamálum en alþýða í skólamálum.

Þá hjelt hann því fram, að alþýðumentun og „lærð“ mentun væru alveg óskyld mál. Hann færði nú engin rök fyrir þessari fullyrðingu sinni, og jeg veit heldur ekki, hver rök ættu fyrir henni að finnast.

Loks hjelt hann einn mikinn rokna reiðilestur, sannkallaða eldprjedikun, yfir stúdentum, sem nú stunda nám við háskólann. Jeg vísa því til hv. frsm. meiri hl. (M. J.) að svara fyrir stúdentana. Hann er þeim kunnugri en jeg, og mig uggir, að hann hljóti að verða á nokkuð öðru máli en þessi sjálfboðni og orðhvati skjaldsveinn hans (S. St.). Jeg fæ ekki skilið, að stúdentar sjeu eins háskalega spiltir og stórhættulegir menn og klerkurinn í vandlætingu sinni virtist halda. Og þótt svo kunni að vera, að einhverjir sjeu til, sem lítils megi vænta af, þá get jeg ekki hugsað mjer, að fyrir það yrði girt, þótt frv. væri samþ., að einhverjir yrðu til vansa. Það hefir jafnan viðgengist, að gáfnatregir menn og lítilsigldir hafa komist inn í skólann og gegnum hann. Og svo verður jafnt fyrir því, þótt latínan sje tekin upp aftur. Það sýnir reynsla fyrri ára. Annars skildist mjer það nú vera eitthvað annað, sem klerkurinn óttaðist meir, en nokkurt syndaflóð. Það voru víst skoðanir sumra þessara yngri mentamanna, sem hann hræddist mest. En þá verður hann að vera hugvitssamari en hann hefir útlit til, ef hann þykist með reglugerð og lögum geta gert þá vjel, er fylli menn ákveðnum skoðunum, sem aldrei geta skilið við þá síðan. Það er meira en nokkur uppeldisfræðingur hefir látið sjer detta í hug.

Í niðurlagi ræðunnar kom fram hugur hans til allra alþýðuskóla, Allir þessir skólar, alt frá barnaskólunum til kennaraskólans, eru eitt stórkostlegt ólán fyrir þjóðina. Þetta er skýr stefna. Skera niður alla alþýðuskóla. Þeir eru hvort sem er ekki nema til bölvunar. Þá er eftir „lærði“ skólinn, og svo skildist mjer þó, að háskólinn ætti að lafa eftir líka. Þó er það víst mest af trygð við nafnið, því ekki var lýsingin af háskólanum og mentaskólanum svo girnileg hjá honum. En þá skil jeg ekki, hví hann vill ekki stiga skrefið heilt og afnema mentaskólann og háskólann líka. Þá fengjum við að lifa í skólalausu landi, og þá væri víst mentuninni borgið í landinu. Eða rjettara sagt, mentunin væri þá komin í það horf, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) gæti vel við unað, og hann þyrfti þá ekki að hafa neinn geig af henni þá daga, sem hann á eftir ólifað í heimi þessum, og í gröf sinni gæti hann sofið rólegur fyrir umbrotum hennar.