07.03.1921
Neðri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (2993)

75. mál, aðflutningsbann á áfengi

Magnús Pjetursson:

Jeg er hæstv. forsrh. (J. M.) alveg sammála um að vekja ekki deilur um þetta mál að svo stöddu. En það er alveg sjerstök ástæða til þess, að jeg stóð upp, þó jeg vildi síður vekja umræður um málið nú.

Eins og hv. deildarmönnum mun eflaust kunnugt, þá eru frv. um breytingar á bannlögunum engin nýmæli hjer í þinginu. Það hafa komið fram frv. um breytingar á þeim ár eftir ár, eins og lesa má um í þingtíðindunum. Og því finst mjer furðusamt, að hæstv. stjórn skyldi koma með þetta frv. nú.

Árið 1917 var hinn sami forsrh. (J. M.). Þá kom fram frv. um breytingar á bannlögunum, en forsrh. (J. M.) færðist undan að flytja það, taldi, að það hefði skaðleg áhrif og mundi veikja trú manna á lögunum, ef verið væri að breyta þeim á hverju ári. En það virðist nú eins og hann hafi sjeð sig um hönd og gengið frá sinni fyrri skoðun. Tel jeg það illa farið, því að sú skoðun hafði við mikil rök að styðjast.

En úr því jeg stóð upp, þá vildi jeg gera stutta fyrirspurn til hæstv. forsrh. (J. M.), ef hann vildi svara henni, sem jeg þó veit, að hann þarf ekki að gera.

Það er þá fyrst, hvort öll stjórnin standi á bak við þetta frv., eða aðeins nokkur hluti hennar?

Þá er það annað, hvort ekki hafi komið til stjórnarinnar frv. um breytingu á bannlögunum, frá landlækni, og ef svo væri, hvað stjórnin hefði í hyggju með það frv., hvort væntanleg nefnd eigi að fá það til álits, eða hvort það á alls ekki að koma nokkursstaðar til álita?