07.03.1921
Neðri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (2994)

75. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki viðurkent, að jeg hafi sjeð mig um hönd, þó jeg beri þetta frv. fram. Það er líka nokkur tími síðan 1917, og reynslutími bannlaganna var þá ekki orðinn langur. Það er og einkum á þessum 4 árum, sem síðan eru liðin, að maður getur sagt, að bannlögin hafi sýnt sig, því að varla gat verið um neina reynslu að tala frá 1914 til þess tíma, og gallar á lögunum komu þá ekki eins fram eins og síðar. Það er heldur ekki að breyta þeim á hverju ári, þó að gerð sje breyting á þeim eftir 4 ára reynslu. Jeg held sem sagt, að það geti ekki talist óeðlilegt, þó ef til vill hv. þm. Str. (M. P.) skilji það ekki, því að hann hefir víst aldrei fengið rjettan skilning á þessu máli.

Hvort þetta frv. er fram komið aðeins af minni hálfu eða allrar stjórnarinnar, þarf jeg ekki að skýra frá. (M. P.: Jeg sagði það líka). En jeg get samt sagt það, að annar hinna ráðherranna er því samþykkur yfirleitt, en afstaða hins er svo kunn, að óþarft er að spyrja. En hann hefir ekki mótmælt því, að jeg kæmi frv. fyrir þingið.

Viðvíkjandi spurningunni um hitt frv., hvort það mundi ekki verða borið fram, þá geri jeg ráð fyrir, að það komi fram á sínum tíma, eins og ýms önnur mál, eftir því, sem tími og tækifæri vinst til að undirbúa þau.

Jeg er heldur ekki fyllilega búinn að gera mjer grein fyrir því, en held samt, að það geti eiginlega ekki talist breyting á bannlögunum.

Jeg hefi ekki ráðið við mig, hvort jeg geti að öllu fallist á eitt atriði í frv. landlæknis, en annars hygg jeg það væri mjög til bóta, ef sú breyting, sem þar er farið fram á, gæti komist í lög.

Jeg sje ekki ástæðu til að svara hv. þm. Str. (M. P.) öðruvísi en jeg hefi nú gert. Það er þýðingarlaust fyrir okkur að deila um þetta mál að þessu sinni; við höfum gerólíkar skoðanir, enda tökum við það frá sitt hvoru sjónarmiði. En jeg vil endurtaka það, að hv. þm. (M. P.) hefir enga ástæðu til að bregða mjer um snúning í þessu máli, eða að jeg hafi sjeð mig um hönd. Það eru liðin 4 ár síðan 1917, og þau eru aðalreynslutími bannlaganna, og ekki óeðlilegt, þó komnir sjeu í ljós agnúar, sem úr þarf að bæta.