07.03.1921
Neðri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (2995)

75. mál, aðflutningsbann á áfengi

Magnús Pjetursson:

Jeg stend upp aftur til að þakka hæstv. forsrh. (J. M.) svörin og traustsyfirlýsinguna, sem hann gaf skilningi mínum á bannlögunum. En jeg held, að okkur sje hollara að bíða með slíka dóma og lofa reyslunni að skera úr því, hver hafi frá upphafi haft gleggri skilning á bannlögunum og hollari þjóðfjelaginu.

En úr því jeg stóð upp aftur, ætla jeg að drepa á eitt atriði í frv. í 2. gr. er gert ráð fyrir að banna tilbúning hármeðala, ilmvatna og annars þess háttar. En hjer er á þingi frv. á ferðinni um einkasölu ríkisins á áfengi, og annað, um einkasölu á lyfjum. Nú vil jeg skjóta því til hæstv. forsrh. (J. M.), hvort til sje ætlast, að þessi atvinnuvegur sje bannaður, þó hann sje í höndum ríkisins eða undir eftirliti þess. Það má gera ráð fyrir, að sá ríkisrekstur verði ekki öðruvísi en í löglegum tilgangi, enda er mjer kunnugt um, að þegar annað þessara frv. var samið, var einmitt gert ráð fyrir góðum hagnaði af þessari grein verslunarinnar.

Það var óþarfi af hæstv. forsrh. (J. M.) að fara út í skoðun á bannlögunum yfirleitt. Jeg gaf ekkert tilefni til þess. Jeg stóð upp aðallega til að spyrjast fyrir um frv. landlæknis, og varð hálfundrandi, þegar hæstv. forsrh. (J. M.) gaf það í skyn, að von gæti orðið á því á þessu þingi frá hæstv. stjórn. Það er einkennileg vinnuaðferð að bera tvö frv. fram á sama þingi um breyting á sömu lögum, og þótt þetta frv. sje ekki bein breyting á bannlögunum, snertir það þau og er þannig stílað.