18.02.1921
Efri deild: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (3002)

17. mál, fátækralög

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Frv. þetta er hvorki langt nje umfangsmikið, en þó er sjálfsagt, að það sje athugað í nefnd.

Fjármálastjórninni er alls ekki láandi, þótt hún vilji reyna að draga úr fjárútlátum ríkisins. En málið hefir fleiri hliðar. Það tekur líka til hreppanna og loks til sjúklinganna.

1913 var sá hluti af legukostnaði sjúklinga ca. 15600 kr., en 1918 þreföld sú upphæð. Þetta er engin furða, þegar athuguð er dýrtíðin og aukin útgjöld á öllum sviðum. Árið 1919 verður að telja undantekningu, þar sem svo miklu munar frá 1918.

Málið tekur einnig til sveitarfjelaganna. Útgjöld þeirra hafa aukist í sama hlutfalli. En sá er munur á, að sveitarstjórnirnar hafa engan gjaldstofn að grípa til nema handahófsálagningu, en ríkissjóður hefir fasta tekjustofna. Því er varhugavert að auka mjög útgjöld hreppanna. Annað mál væri það, ef þeim væri sjeð fyrir föstum tekjum, ef stjórnin hefði lagt til, að t. d. 10% af tekjuskattinum rynnu í sveitarsjóð. En meðan svo er ekki tel jeg málið nokkuð athugavert.

Loks tekur málið til sjúklinga. Jeg er sammála þeim, sem áður hafa mælt, í því, að jeg vona, að við sjeum búnir að ná hátindi dýrtíðarinnar og förum nú að þokast niður á við. Eftir 2–3 ár verða 600 kr. ef til vill þrefaldar að verðmæti við það, sem nú er. Þá er eðlilegt, að menn hugsi sig meira um áður en þeir senda sjúklingana á sjúkrahús. Og eitt er mjög athugavert í þessu sambandi. Meiri hluti þessara sjúklinga er á Vífilsstaðahæli. Og mjer virðist ekkert mega gera, sem dregið getur úr því, að sjúklingar sjeu sendir þangað, síst meðan sjúkrahús úti um land eru jafnfá og óhæf mönnum með berklaveiki og enn er. Þetta er einnig vert að athuga.

Annars virtist mjer sanngjarnast, að þessi framlög ríkissjóðs væru miðuð við tilkostnað sveitarfjelaganna, og væri ákveðið fyrirfram, t. d. um tvö ár í senn, hve mikinn hundraðshluta af kostnaðinum ríkissjóður skuli greiða.