18.02.1921
Efri deild: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (3004)

17. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Samkvæmt till. hv. 2. þm. G.-K. (B. K.) þarf meiri lagabreytingu, og því þarf vist málið að fara í nefnd. Get jeg verið þeim háttv. þm. sammála um, að heppilegt sje, að styrkurinn væri ákveðinn „pro rata“, eða með hlutfalli milli sveitarsjóðs og ríkissjóðs.

Þegar stjórnin samdi þetta frv., miðaði hún við sama fyrirkomulag og áður var, án þess að binda sig við fast „princip“. Breytingin miðaði því einungis að því að gera hluttöku sveitarfjelaganna rjettari hlutfallslega, vegna þess, að hlutföllin voru orðin svo skekt og úrelt, sökum verðbreytingar á peningum.

Hv. þm. Snæf. (H. St.) taldi varhugavert að íþyngja hreppunum. Jeg álít, að ríkið standi ekki betur að vígi en hrepparnir. Gjaldstofnar þess eru óvissir, og þeir stærstu eru aðfluttu vörurnar, sem yrðu nógu dýrar fyrir, þótt ekki væru síhækkuð gjöld af þeim. Sveitarstjórnir geta lagt á eftir efnum og ástæðum. Það á að geta komið hlutfallslega rjett niður, þótt svo sje ef til vill eigi ávalt.

Það er rjett athugað, að þetta frv. þarf að athugast í sambandi við frv. berklaveikisnefndarinnar, sem kom síðar fram.