19.02.1921
Efri deild: 4. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (3007)

24. mál, einkasala á lyfjum

Forsætisráðherra (J. M.):

Eins og tekið er fram í aths., er frv. þetta komið frá landlækni og samið af honum. Hann mun því, með því að hann á sæti hjer í deildinni, taka til máls, er honum þykir við þurfa, og skýra það frekar fyrir þeirri hv. nefnd, sem væntanlega fjallar um málið. Jeg gæti í rauninni látið mjer nægja að sinni að kasta allri áhyggju út af þessu frv. á herðar hæstv. forseta og vísa til aths. þeirra, sem hann hefir látið fylgja frv. sínu. Mjer þykir samt rjett að drepa aðeins á örfá atriði, sem reyndar eru flest fram tekin þar.

Í aths. er það tekið fram fyrst og fremst, að lyfjaverslunin er eitt mikilvægasta atriðið í heilbrigðismálum þjóðarinnar, og það er því auðsætt, hve afaráríðandi það er að tryggja sem allra best, að öll lyf, umbúðir og hjúkrunargögn, sem flutt eru inn í landið og seld þar, sjeu óskemdar vörur, ósviknar, nægar birgðir af þeim og þær seldar hæfilegu verði. Þá tekur landlæknir það fram, að síðan styrjöldin hófst hafi reynst erfitt að afla ýmissa þeirra nauðsynja, sem tilheyra, og kveðst hann smám saman hafa orðið þess var, að vörugæðin sjeu ekki jafnábyggileg og áður. Þess vegna hafi einstöku menn nú hreyft því, hvort ekki væri rjett, að ríkið tæki lyfjaverslunina í sínar hendur, og átt þá við, að ríkið eignaðist allar lyfjabúðir landsins og ræki þær á sinn kostnað.

Þetta er alls ekki ný hugmynd, hvorki hjer nje annarsstaðar. Bæði meðan jeg var landshöfðingjaritari og síðar, er jeg var skrifstofustjóri í stjórnarráðinu og hafði heilbrigðismál landsins með höndum, kom þetta atriði heilbrigðismálanna oft til tals á milli okkar landlæknis, og man jeg, að jeg var að ympra á því, hvort ekki mundi ráð, að landið hefði sjálft lyfjaverslunina. Verslun þessi væri einokuð hvort sem væri, en það var trú manna þá, má ske oftrú, að gróðinn af henni væri mikill.

Landlæknir var þá, eins og nú, mótfallinn því, að landið tæki lyfjabúðirnar til rekstrar og það mjög af þeim ástæðum, sem hann telur nú vera á móti því. Jeg ljet mjer þá nægja rök hans, og jeg býst við, að þau sjeu engu síður gild nú, um sinn að minsta kosti, nema fremur sje.

En landlæknir hefir nú komist að þeirri niðurstöðu, að honum beri að leggja það til, að ríkið taki að sjer innflutning og stórsölu á lyfjum, umbúðum og hjúkrunargögnum. Á þennan hátt telur landlæknir mega:

1) tryggja það, að vörur þessar sjeu jafnan ósviknar og óskemdar og í alla staði svo vandaðar sem vera ber;

2) tryggja það, að ávalt sje nægur forði af vörum þessum í landinu;

3) selja þessar vörur í stórsölu og smásölu með hæfilegum hagnaði fyrir ríkið og lyfsala, án þess að íþyngja almenningi.

Lyfsalafjelag Íslands hefir sent Alþingi mótmæli gegn frv. þessu. Það er ekki nema eðlilegt. Þeir telja með þessu ráðist á stjett sína, og má þá engan furða, þótt þeir geri alt, sem í þeirra valdi er, til þess að sporna við því, að málið fái framgang. Annað mál er það, hvort þetta er rjett álitið og hvort mótmæli þeirra eru á rökum bygð.

Um 1. atriði, trygginguna fyrir því, hvort vörurnar sjeu góðar, segja lyfsalarnir engu betri með ríkisverslun en án hennar. Lyfsalar kaupi nú vörur sínar í verksmiðjum, sem hver um sig sje undir ríkiseftirliti, hver í sínu landi, og lyfjaverslun ríkisins hlyti að kaupa vörur á hinum sömu stöðum. Tryggingin sje því nákvæmlega söm hjá einokunarversluninni, sem þeir kalla svo, til þess að ófrægja hana fyrirfram, gáandi ekki að því, að þeir heimta einokun sjálfir.

Það er víst rjett, að lyfsalar yfirleitt kaupa megnið af lyfjum hjá áreiðanlegum firmum. Líklega flestir mest hjá einu dönsku firma. En að trygging sje fyrir því, að lyfsalar hjer kaupi öll sín lyf hjá verksmiðjum, sem ríkiseftirlit sje með, og að ekki geti komið og komi svikin lyf til landsins, það verð jeg að efa, að bæði eftirlitinu og lyfsölum vorum ólöstuðum. Jeg skal nú gera ráð fyrir, að eftirlitið og lyfjaverslunin hjer standi á líku stigi og í Danmörku; þaðan eru lyfin mestmegnis komin siðast, og þaðan eru flestir lyfsalarnir komnir, — úr læri að minsta kosti. Með þessu hygg jeg, að jeg geri ekki lyfjaversluninni hjer rangt til. Í Danmörku hefir það komið í ljós, að síðasta ár var þar verslað með allmikið af sviknum og fölsuðum lyfjum. Þau munu aðallega komin þangað frá Þýskalandi, og þaðan geta þau vel komið hingað, eða það er ekki fyrir það bygt, að þau komi hingað frá Þýskalandi, beint eða óbeint. Það er sjerstaklega talað um, að „salvarsan“ sje svikið, og svo er sagt, að ýms alm. „præparata“, svo sem „asperin“, „antipyrin“ og „veronal“ og fleira, sem jeg kann ekki að nefna, sje svikið og ónýtt, og heilar verksmiðjur erlendis sjeu bygðar til þess að framleiða þessar sviknu vörur. Þær eru miklu ódýrari en ósviknar vörur og gefa lyfsölunum miklu meiri gróða en hinar, sem tilbúnar eru í góðum verksmiðjum. Nú er það bert, hve miklu meiri freisting það er fyrir lyfsala, sem sjálfur fær allan hag eða óhag af verslun sinni, að kaupa lyf sem ódýrast, þótt trygging sje ekki alveg eins mikil fyrir því, að þau sjeu góð, heldur en fyrir lyfsölustjóra, sem ekkert gagn getur haft af því að selja miður góðar vörur.

Um 2. atriðið, um það, að hægra sje yfirleitt fyrir lyfsala að fá vörur frá Reykjavík en frá útlöndum, og fljótar, ef á liggur, þarf engum orðum að eyða. Athugasemdir lyfsalanna um það atriði eru alveg út í loftið. Auðvitað þurfa lyfsölubúðirnar, einkum þær, sem lengst eiga heima frá Reykjavík, altaf að hafa birgðir, en það liggur í augum uppi, að venjulega er fljótar til að taka í Reykjavík, jafnvel frá hinum fjarlægustu stöðum, heldur en frá útlöndum.

Þá kemur sú mótbáran, sem jeg býst við að margir menn telji veigamesta, að lyfin verði með ríkisverslun dýrari fyrir almenning. Gera lyfsalar áætlun um kostnaðinn við hina fyrirhuguðu lyfjaverslun 107,500 kr. Útkoman er nú röng hjá þeim, sem stafar af samlagningarvillu. Allur kostnaðurinn, eftir þeirra reikningi, á að vera 117,500 kr. Jeg skal ekki fara út í þennan kostnaðarreikning þeirra að sinni. Það athugar væntanlega nefndin, sem um málið fjallar hjer, og býst jeg við, að landlæknir gefi henni allar skýrslur þar um, að því er unt er. Það er mjer samt óhætt að segja, að þessi kostnaðaráætlun er of há. Jeg geri ráð fyrir, að kostnaðurinn mundi verða 70–80 þús. kr., eða um 10% af veltunni. En dálítið af þessum kostnaði legst auðvitað á, þótt ekki sje ríkisverslun. — Þennan aukakostnað býst jeg við að hægt sje að vinna upp með betra innkaupsverði, er lyfjaverslunin er á einni hendi, og því hægt að gera miklu stærri kaup við eitt firma. Þá tel jeg sjálfsagt, að landslyfjaverslunin kaupi og flytji inn alt áfengi handa lyfjabúðum og á þeirri verslun sje hægt að græða svo mikið, að ríkislyfjaverslunin beri sig án þess að hækka þurfi lyfin við almenning. Að því leyti, sem þetta þætti ekki koma heim við frv. um einkasölu á tóbaki og áfengi, vænti jeg þess, að þetta verði lagfært við meðferðina í þinginu. Jeg legg enga áherslu á það, að ríkissjóður græði á lyfjaverslun.

Þá kemur sú ástæðan, að frv. brjóti í bág við stjórnarskrána og að þessa verslun sje ekki hægt að taka af lyfsölunum án skaðabóta. Jeg hefi ekki fundið það í rökum lyfsalanna, sem hafi getað sannfært mig um, að lyfsalar eigi neinn þann rjett að þessu leyti, sem bæta þurfi fyrir, þótt af verði tekinn, og furðar mig, hve veigalitil rök lyfsalanna eru fyrir skaðabótakröfu, ef sá maður hefir skrifað álitið, sem sagt er.

Mundi nú þurfa afarmikið fje? Jeg efast um það; annars verður það verk þeirrar nefndar, sem þetta mál hefir með höndum, að athuga það. Jeg get ekki ímyndað mjer, að það sjeu svo miklir örðugleikar við þetta nú, en ef svo skyldi samt vera, þá má fresta því, en álít þess enga þörf. Annars tala jeg um mál þetta sem leikmaður. Loks vænti jeg, að nefndin, sem fjallar um mál þetta, hafi landlækni með í ráðum.