17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (3018)

19. mál, vatnalög

Bjarni Jónsson:

Jeg skal fyrst gera tvær stuttar athugasemdir við ræðu hæstv. atvrh. (P. J.). Það gladdi mig, að hann er okkur í nefndinni sammála um netalögin, enda getur það atriði varla verið vafabundið. Þó skal jeg geta þess, að um vötn, eins og Mývatn, þyrfti að sjálfsögðu sjerstök ákvæði, að svo miklu leyti sem þar er komið upp sjerstakt klak, en rjett til hagnaðar af því geta ekki aðrir átt en þeir, sem tekið hafa þátt í kostnaðinum við það.

Annars stóð jeg aðallega upp til þess að vita það, að hæstv. stjórn skuli hafa lagt þetta mál fram nú eins og raun er á, sem sje á röngum grundvelli að því er snertir yfirráðarjett vatnanna. Þó stjórnin láti svo í veðri vaka, að henni hafi virst fleiri hv. þm. hallast að hinni röngu skoðun minni hl., þá er hvorttveggja, að fyrir slíku áliti eru engar sönnur í atkvgr. þingsins, og svo hitt, að stjórninni er skylt, sem slíkri, að halda fram rjetti ríkisins, á hvaða skoðun sem þeir kunna að vera persónulega, sem í henni sitja í svip, eða aðrir þingmenn.

Sömuleiðis vil jeg taka það fram, út af orðum hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) um höf. frv., að hann er í þessu máli enn þá, eins og hann hefir áður verið, ákveðinn fylgismaður meiri hl. skoðunarinnar. Hitt virðist mjer ekki ámælisvert, þótt fátækur maður vinni sjer það til tekjuauka að vinna þetta starf fyrir stjórnina, og mega menn í því sambandi ekki gleyma því, að þær skoðanir, sem hann þarna hefir fært til forms, eru ekki hans skoðanir, heldur stjórnarinnar.

Annars þarf jeg að þessu sinni ekki að fjölyrða um málið. Mönnum ætti að vera orðið það ljóst, hver áhrif það hefir á ókomnum árum, ef yfirráð vatnsaflsins komast í erlendar braskarahendur. Það er dauði íslensku þjóðarinnar. Þess vegna var það skylda stjórnarinnar, eins og allra annara góðra Íslendinga, að taka aðra stefnu en hún gerði, taka stefnu meiri hl. fossanefndarinnar, sem er eina trygga stefnan fyrir ríkið og fyrir íslenskt þjóðerni.