17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í C-deild Alþingistíðinda. (3019)

19. mál, vatnalög

Sveinn Ólafsson:

í athugasemdunum við vatnalagafrv. þetta er þess getið, að það sje bygt á stefnu minni hl. fossanefndarinnar, en hitt kemur þar líka fram, og þó óljóst, að form þess er að miklu tekið frá meiri hl. Mætti því ætla, að jeg yndi vel við stefnu þess, og það myndi jeg gert hafa, ef þessi yfirlýsing stjórnarinnar í ástæðunum hefði rjett verið, en svo er ekki. Stefnan í þessu frv. er ekki ólituð stefna minni hl., heldur fer hún sumstaðar beint í bága við hana. í frv. er form meiri hl. svo fastlega þrætt, að furðu gegnir. Flókin, tyrfin og smámunaleg sundurliðun greina í töluliði og stafliði með sífeldum tilvitnunum aftur og fram og hóflausri mælgi, gerir frv. að því lagabákni, sem harla vandasamt verður til eftirbreytni og allsendis óþarflega margþætt fyrir vora þjóð að sinni. Norðmenn, sem eru ein mesta vatnsiðjuþjóð í Norðurálfu, hafa til síðustu daga, eða um 30 ár, búið við vatnalög í 77 tiltölulega stuttum greinum, er hjer er nú lagt upp með 158 gr., flestar í mörgum liðum, og sumar svo langar og tyrfnar, að tíundi hluti hefði nægt, og þó eru ákvæðin viða óljós. Hjer er því í algleyming komin sú stefna, sem talsvert hefir bólað á í íslenskri löggjöf síðari árin, að flækja svo fyrirmæli laganna, að eigi verði þverfótað í þjóðfjelaginu, nema með lögfræðilega ráðunauta við hlið.

Reyndar þarf engan að furða á þessu nú, þegar það er upplýst, að stjórnin hefir sett þann mann til að bræða saman frv., sem fyrirfram var ákveðinn fylgismaður við meiri hl. og hafði tekið að sjer að verja hans stefnu. Engin furða þess vegna, þótt frv. yrði litað af stefnu hans og skoðun, jafnvel ósjálfrátt. Jeg tek ekki þetta fram honum til ámælis, því að hitt hefði mátt álíta hreint undur, hefði maðurinn getað söðlað svo um á stefnu sinni, að hennar gætti ekki.

Hitt tel jeg mjög ámælisvert af stjórninni, sem hafði ákveðið að flytja stefnu minni hl., að velja einmitt þennan mann til verksins. Það var því óþarfara, sem völ var hjer á mörgum vel færum lögfræðingum öðrum og sennilega hleypidómalausum um málið.

Eina af athugasemdum stjórnarinnar verð jeg að minnast á. Hún segir í aths. II. kafla frv., að það muni skifta 1it1u fyrir þjóðfjelagsheildina, hvort stefna minni h1. eða meiri h1. Verði ofan á.

Mjer varð starsýnt á þessa kenningu, og vel lýsir hún því, að hjer talar maður, sem bera vill í bætifláka fyrir kenningu meiri hl., þegar hún er að bíða ósigur. Það má líta svo á, að stjórnin með þessari kenningu, um jafngildi stefnanna, telji litlu máli skifta, hvort brotin eru lög á einstaklingunum eða ekki, því allir vita, sem við sannleikann vilja kann eldri löggjöf landsins um eignarumráðast, að stefna minni hl. er samkvæm yfir vatni, en stefna meiri hl. gagnstæð.

Þetta játar stjórnin líka berlega með því að segjast byggja á stefnu minni hl., og tel jeg hana síður en ámælisverða fyrir þá viðleitni. Það er ekkert tiltökumál, þótt hv. þm. Dala. (B. J.) átelji hana fyrir þetta og telji stefnuna dauðadóm Íslensku þjóðarinnar. Hann mun varla verða sannspár um þetta, enda hefir þjóðin við þessa stefnu búið það sem af er ævi hennar. Hitt vil jeg um fordæmingu hans á stefnunni segja, að stjórnin hefir hjer farið þá einu færu leið, þá leið, sem fyrverandi stjórn einnig vildi fara og sjerhver stjórn verður að fara í ágreiningnum um eignarumráðin yfir vatni. Jeg ætla, að engin stjórn á þessum árum treystist að taka upp stefnu meiri hl. fossanefndar, nema ef svo færi, að hv. þm. Dala. (B. J.) lenti í stjórn og gerðist flytjandi hennar, og yrði það honum þá að fótakefli.

Þessu máli er nú svo komið, fyrir óheppilega meðferð stjórnarinnar á því og samblöndun ólíkra stefna í frv., að það er miklu torveldara viðfangs en vera þurfti, og vil jeg því leggja til, að skipuð verði í það 7 manna nefnd hjer í deild. Það sæmir ekki að velkja þetta mál og tefja þing eftir þing, og nú er 3. þingið tekið við því til fyrirgreiðslu.