17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (3020)

19. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg ætlaði ekki út í langar umræður að þessu sinni, og dettur ekki í hug við þessa umr. málsins að fara að kýta út af frv.

Jeg þykist vita, að mál þetta hafi bæði sókn og vörn, og álít því rjett að lofa hv. þm. að leiða hesta sína saman, án þess að jeg taki mikinn þátt í deilum þeim.

Þó vil jeg nú þegar svara þeim hv. þm. nokkrum orðum, sem vítt hafa afskifti stjórnarinnar af frv. þessu.

Mjer þótti það næsta kynlegt hjá hv. þm. Dala. (B. J.), er hann sagði í ræðu sinni, að það hefði verið óforsvaranlegt af stjórninni að hallast að þeirri stefnu í ágreiningi fossanefndar, sem væri ríkinu í óhag. Jeg sje ekki, að annað sje forsvaranlegt af stjórninni en að haga sjer samkvæmt sannfæringu sinni, alveg eins og þingmenn.

Aftur á móti skal það þegar tekið fram, út af ummælum sama hv. þm. (B. J.), svo enginn misskilningur verði, að Einar Arnórsson ber enga ábyrgð á stefnu frv. þessa. Hann var aðeins aðstoðarmaður stjórnarinnar við samning frv. og er því ábyrgðarlaus með öllu um stefnuna. En hitt get jeg tæplega álitið rjett, eins og hv. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hjelt fram, að stjórnin hefði ekki átt að kveðja þennan mann sjer til aðstoðar. Einar Arnórsson var þó sá lögfræðingurinn, að undanteknum Guðm. Eggerz, sem kunnugastur var máli þessu og öllum gangi þess frá því fyrst að það kom fyrir þingið. Svo jeg get ekki fallist á, að stjórnin eigi nokkurt ámæli skilið fyrir það að taka einmitt þann mann sjer til aðstoðar.

Þá fanst hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) ýmislegt athugavert við frv., bæði orðavalið á ýmsum stöðum, svo og það, að sumstaðar gengi það fullnærri stefnu meiri hl. í milliþinganefnd fossamálsins. Um þessi atriði get jeg verið fáorður. Þingið 1919 mun hafa hallast í sömu átt líka. En báðar þessar stefnur hafa sína málsvara í þinginu, og mun jeg láta þeim eftir að deila um það, hvort betra sje eða rjettara.

Aðeins skal jeg taka það fram, að sú stefnan, sem meiri hl. milliþinganefndarinnar hjelt fram um eignarrjettinn, virðist koma í bága við rjettarmeðvitund þjóðarinnar. Því var reynt að fylgja minni hlutanum í því efni.

Annars skal jeg játa, að jeg hefi ekki haft færi á að afla mjer þeirra upplýsinga í máli þessu og rækilegrar íhugunar, sem jeg hefði viljað, og læt því eftir öðrum fróðari mönnum mjer að deila um stefnur þessar.