17.02.1921
Efri deild: 2. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (3021)

19. mál, vatnalög

Bjarni Jónsson:

Mjer þótti vænt um yfirlýsingu hæstv. atvrh. (P. J.), að Einar Arnórsson bæri enga ábyrgð á stefnu frv. þessa. Verður því ekki hægt síðar í umr. þessa máls að gefa Einari Arnórssyni það að sök, að hann hafi í nokkru hvikað frá stefnu þeirri, er við meiri hl. menn hjeldum fram í nefndinni. Með ræðu minni, þeirri áðan, vildi jeg einmitt fá þetta fram.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að jeg ætlaðist til of mikils af stjórninni, ef hún færi að krefja um meiri rjett ríkinu til handa en frv. fer fram á. En það, sem jeg átti við, er það, að mjer skildist, að stjórnin hefði verið svo sannfærð um rjettmæti þeirrar skoðunar, er minni hl. fossanefndar hjelt fram, að því hefði hún þá stefnu upp tekið í frv. þessu.

Jeg vil halda því fram, að stjórnin sje ekki svo hæf til úrskurðar í máli þessu, og hefði hún því átt að fylgja þeirri loflegu stefnu, sem á latnesku máli nefnist „peccare in cautiorum partem“, en það er á voru máli „að syndga heldur á þá hliðina, sem hættuminna er.“

Jeg hygg þessi orð mín muni óhrakin standa. Það var gersamlega rangt af stjórninni að leggja ekki fyrir þingið frv. á hinum grundvellinum.