04.03.1921
Neðri deild: 14. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (3035)

64. mál, skipun prestakalla

Flm. (Þorleifur Jónsson):

Það er samkvæmt ósk safnaðarins í Stafafellssókn í Austur-Skaftafellssýslu, að jeg leyfi mjer að bera þetta frv. fram.

Í prestakallalögunum frá 1907 er svo ákveðið, að Stafafellssókn leggist til Bjarnaness og Einholtssókn til Kálfafellsstaðar. Var þá með því fækkað um einn prest í Austur-Skaftafellssýslu. Það er svo til ætlast, að í allri Austur- Skaftafellssýslu verði aðeins 3 prestar. Áður fyrri, eða alt fram undir 1880, voru 5 prestar í sýslunni. En um þær mundir mun Einholtssókn hafa verið lögð til Bjarnaness. Þessi sameining, sem prestakallalögin gera ráð fyrir, hefir þó aðeins verið á pappírnum þangað til síðastl. sumar, að Stafafellssókn var sameinuð Bjarnanesi við fráfall síra Jóns á Stafafelli. Núverandi Bjarnanespresti, sjera Ólafi Stephensen, mun hafa borið skylda til, samkvæmt þessum lögum, að þjóna Stafafellsprestakalli, en losnar þó eigi við Einholtssókn, með því að eigi er hægt að skylda prestinn á Kálfafellsstað, sem orðinn er aldraður maður, til að bæta þeirri sókn við sig. Bjarnanesprestur verður því, eins og nú standa sakir, að þjóna 3 sóknum — 3 prestaköllum, eins og þau voru í gamla daga — og vita allir kunnugir, að það er ofætlun. Og engir kunnugir munu heldur neita því, að sameiningar þær, er prestakállálögin mæla fyrir um í Austur-Skaftafellssýslu, eru afaróhagstæðar.

Landslagi er þann veg háttað, að slæmar torfærur, stórvötn, fjallvegir og eyðisandar skilja svo að segja eina sveit frá annari. En þó taka út yfir torfærurnar milli Bjarnaness og Stafafells, Almannaskarð og Jökulsá í Lóni. Er því rjett lýst í brjefi sóknarnefndar Stafafellssóknar, sem prentað er með frv. þessu.

Undir eins og þessi sameining komst í framkvæmd, reis upp megn óánægja hjá Stafafellssöfnuði út af sameiningunni, og skrifuðu þeir í haust prófasti brjef það, sem prentað er með frv.

Prófastur kallaði svo saman hjeraðsfund, og var hann haldinn 12. október. Samþykt hjeraðsfundar um málið hefi jeg hjer við höndina, og, með leyfi hæstv. forseta, ætla jeg að lesa hana upp. Hún hljóðar svo:

„Lagt fram brjef frá sóknarnefndinni í Stafafellssókn, dags. 24. sept. þ. á., þar sem þess er óskað, að hjeraðsfundur gefi sín meðmæli með því, að Stafafellssókn verði eftirleiðis, eins og hingað til, sjerstakt prestakall.

Er þar rækilega bent á þá miklu annmarka, sem sameiningin við Bjarnanes hefir í för með sjer.

Fundarmenn ræddu þetta mál allmikið, og eftir þær umræður var samþ. svo hljóðandi till.:

Fundurinn fellst á ástæður þær, er færðar eru fyrir því í brjefi sóknarnefndarinnar í Stafafellssókn, að sameining Stafafellssóknar við Bjarnanes sje með öllu ógerleg, og mælir fundurinn hið kröftugasta með því, að Stafafellssókn sje gerð að sjerstöku prestakalli.

Samþykt með öllum atkv.

Menn sjá af þessu, að hjeraðsfundurinn lagði eindregið á móti sameiningunni, taldi hana ógerlega og óframkvæmanlega, og vildi því láta Stafafellssókn hafa sinn prest, eins og áður hafði tíðkast.

Prófastur sendi svo samþykt hjeraðsfundar til biskups og mælti hið kröftugasta með henni. Hefi jeg einnig hjer við höndina brjef prófasts til biskups, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr því dálítinn kafla, er hljóðar svo:

Svo má skoða þessa sameiningu frá safnaðarins hlið: fyrst er það, hve sjaldan hann fær messu, og svo hve erfitt honum er gert að vitja prests. Frá Hvalnesi, austasta bæ í Lóni, er dagleið að Bjarnanesi, er engar torfærur hamla. Tekur það því tvo daga að sækja og flytja prestinn. Ekki furða, þó að söfnuðurinn kvarti undan slíku, eins og alt er dýrt nú. Sömu umkvörtunina heyri jeg hjá Einholtssókn, er þeir eiga að fara að sækja prest að Kálfafellsstað við næstu prestaskifti þar; vilja heldur vitja prests yfir Hornafjarðarfljót, þó ilt sje, en sækja prest langan veg yfir Hellishólsvatn, Heiðnabergsvötn, Kolgrímu og Staðará.

Samsteypa þessi gerir bæði prestaköllin ómöguleg; sannast hjer það, sem hr. Hallgrímur sál. sagði 1907, að samsteypan „gengi lengra en góðu hófi gegndi, hvort sem litið er til presta eða safnaða.“ Staðhættir hjer í sýslu, eyðisandar og stórvötn, gera það að verkum, að undir öllum kringumstæðum er of lítið að hafa 3 presta í sýslunni, ef á annað borð nokkur prestsþjónusta á að vera.“

Jeg get vel búist við, eins og prófastur tekur líka fram í brjefi sínu, að óánægja muni verða ekki öllu minni hjá íbúum Einholtssóknar, þegar þau ákvæði komast í framkvæmd, að Einholtssókn verður lögð til Kálfafellsstaðar, þar sem mörg og stór vötn eru þar á milli.

Nei, einasta sameiningin, sem gerleg er, er þessi, sem staðið hefir nú um fleiri áratugi, Bjarnanes- og Einholtssókn, því þar er þó ekki nema eitt stórvatn á milli, Hornafjarðarfljót, og vegalengdin ekki tiltakanleg.

Jeg skal nú játa, að það er í raun og veru neyðarúrræði að verða að koma með till. um að auka embættabyrðina á landinu, einmitt nú á þessum vandræðatímum, því að það er öllum ljóst, að hún er orðin óhæfilega mikil. En þó að þessi áböggull verði settur ofan í milli, mun það ekki verða til að sliga þjóðina. Og jeg hafði búist við því, að frumv. stjórnarinnar um hækkun sóknargjaldanna gengi fram; þá lendir þó allmikið af byrðinni á söfnuðina sjálfa, og er það mikið sanngjarnt í raun og veru. Hitt væri ósanngjarnt, að hækka tillög safnaðanna til prestanna að miklum mun, og svifta þá um leið prestsþjónustu að meira eða minna leyti, a. m. k. torvelda þeim alla prestsþjónustu, sem þarna eiga hlut að máli, í Austur-Skaftafellssýslu.

Jeg sje ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál. Vona aðeins, að að hv. deild lofi því að fara áfram til 2. umr. og þá til allsherjamefndar, og vona jeg þá, að nefndin fari mjúkum höndum um það og leyfi því fram að ganga.