10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (3055)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg verð að segja fáein orð um þetta mál, því að hv. allshn. hefir gert mjer þann heiður að nefna mig í nál. sínu á þskj. 340. Það er nú rjett, sem þar er eftir mjer haft, og vil jeg bæta því við, að í allshn. 1919 var jeg þess fremur letjandi, að lög þau yrðu sett, sem nú er tilætlunin að breyta, og var ástæðan til þess sú, að jeg áleit, að breytingin væri alls ekki nauðsynleg. Hitt ugði mig ekki, sem nú er fram komið, að lög þessi yrðu misbrúkuð, og þess vegna hlýt jeg nú að fylgja að málum háttv. samþm. mínum (J. S.), um að fá þessu kipt í lag, með því að skilja úr þau tilfelli, sem ekki eiga hjer við. Fyrir mjer stendur þetta mál þannig, að notandi slægna eigi ekki að greiða útsvar þar sem slægjuland er, ef hann er þar ekki búsettur, nema hreppur sá, sem slægjuland er í, hafi ekki á annan hátt tekjur af landinu. Hins vegar sýnist engin sanngirni í því, að t. d. sá, sem fær 5–10 hesta heyskap í næsta hreppi, gegn fylsta gjaldi til manns, sem þar er búsettur, eigi að borga útsvar fyrir þessar slægjur, því að leigusali er útsvarsskyldur. Það er og heldur ekki rjett að útsvarsskylda fleiri utanhreppsmenn en minst er nauðsyn á, því að það er kunnara en frá þurfi að segja, að hreppsnefndir eru ekki eins sanngjarnar í álagning sinni á utanhreppsmenn og skyldi.

Jeg er því hissa á því, að hv. allshn. skyldi ekki geta gengið að þessu frv.. en vona, að deildin sjái sjer fært að samþ. það.