10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (3059)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Björn Hallsson:

Það er aðeins stutt athugasemd út af því, að hv. frsm. (P. O.) vildi taka það sem ámæli eða aðdróttun í garð sýslunefnda, að jeg sagði, að þær væru oft tregar til að taka til greina útsvarskærur. Jeg mótmæli því eindregið, að þetta sje nokkur aðdróttun í garð sýslunefnda. Jeg þóttist skýra þetta svo frá minni hlið, að hv. frsm. (P. O.) þurfti ekki að hlaupa upp á nef sjer fyrir sýslunefndirnar út af því. Er mjer fullkunnugt um, að þær nota flesta agnúa, sem þær geta, til þess að vísa frá útsvarskærum. Jeg hugsa, að það sje viðar en þar sem jeg þekki best til. Jeg benti á það, að hreppsnefndir þektu venjulega kærendur betur heldur en sýslunefndin, og ættu því hægra með að taka það til greina og athugunar, enda hafa sýslunefndir við nógu öðru að snúast á sýslufundum.

Hv. þm. (P. O.) sagði, að sjer þætti leitt, að sýslunefndir þar eystra væru svona gerðar, eins og hann komst að orði. Mjer er óhætt að fullyrða, eftir þeirri reynslu, sem jeg hefi af þeim, að þær sjeu ekki til fyrirmyndar um það, sem miður fer. Og jeg get ekki viður kent, að sýslunefndin í N.-M.-sýslu sje ámælisverð, þó að hún hafi ekki tekið allar útsvarskærur til greina, sem henni hafa borist.

Annars ætla jeg ekki að fjölyrða meira, því mjer finst vera búið að ræða nóg um ekki margbrotnara mál en þetta. Jeg vildi aðeins bera það af mjer, að jeg hafi verið með aðdróttanir í garð sýslunefnda. Og jeg held líka, að mjer sjeu jafnvel kunn sýslunefndastörf og hv. þm. (P. O).