13.04.1921
Efri deild: 42. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

9. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg þarf ekki að taka margt fram um frumvarpið. Nefndin er sammála um, að sjálfsagt sje að hækka aukatekjurnar, því að verðgildi peninga er mikið lægra nú en þegar lögin um aukatekjur voru sett 1911, eða það, sem fæst fyrir peninga, hefir stígið í verði. Auk þess hafa laun starfsmanna ríkisins mikið hækkað, og virðist því eðlilegt, að þeir, sem kaupa þurfa þessi verk þeirra, borgi einnig meira fyrir þau.

Hækkun þá, sem frv. fer fram á, telur nefndin hæfilega mikla. Hún er að vísu ekki hlutfallslega jafnmikil og hækkunin á launum embættismanna, en nefndin álítur einmitt rjett að hafa hana minni, því að gera má ráð fyrir, að laun þeirra fari úr þessu lækkandi, dýrtíðaruppbótin minki.

Gert er ráð fyrir, að tekjuaukinn, sem frv. þetta gefur, muni nema 30 þús. kr., og jeg er á því, að ekki sje hægt að afla ríkissjóði sanngjarnari tekjuauka á þessu þingi. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um þetta. Nefndin mælir hið besta með frv. og leggur til að það verði samþykt.