11.03.1921
Neðri deild: 20. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í C-deild Alþingistíðinda. (3084)

80. mál, fiskimat

Flm. (Ólafur Proppé):

Herra foseti! Löggjöfin um vörumat og vöruvöndun er tiltölulega ung hjá okkur, og er því eðlilegt, að ýmsir agnúar komi í ljós á fyrirkomulaginu við framkvæmd laganna. Svo hefir það orðið tilfellið með fiskimatið, og höfum við 3 þm. því leyft okkur að flytja þetta frv. Það mætti svo að orði kveða, að þetta væri viðauki við lögin frá 1909, því að þessi breyting, sem frv. fer fram á, er í raun rjettri grundvöllurinn, sem fiskimatið ætti að byggjast á. Það er hjer farið fram á, að allur fiskur, sem út úr landinu fer, verði metinn. En óverkaður fiskur hefir hingað til ekki verið metinn. Þó væri þess ekki síður þörf. Vöndun sú, sem fiskimatið hefir komið á fullverkaðan fisk, sýnir, hve mikið gagn er að matinu, en óverkaður fiskur þarf líka mikillar aðgæslu, því að honum er hættara við skemdum. Það verðfall, sem orðið hefir á fiskmarkaðinum, á má ske rót sína að rekja til þess, hve vöndunin á óverkaða fiskinum hefir verið slæm, og væri engin vanþörf á að athuga það. Svo er það, að verslunin með saltaðan, óverkaðan fisk er orðin eins mikil, ef ekki meiri, en með fullverkaðan. En 1909, þegar lögin voru sett, þektist ekki sala á óverkuðum fiski, en eingöngu gengið út frá verkuðum fiski, sem sendast átti til Miðjarðarhafslandanna, en lítið eða ekkert til Bretlands eða annara landa. Eins og jeg tók fram áðan, þá er með þessari breytingu farið fram á, að óverkaður fiskur verði einnig háður lögskipuðu mati.

Það hefir líka á þessum tíma risið upp ný grein af útgerðinni, þar sem er mótorbátaútgerðin, og mun hún hafa fætt það af sjer, að óverkaður fiskur er seldur og keyptur meira en áður. Og þar má segja, að sje misjafn sauður í mörgu fje, enda hefir bólað á talsverðri óvöndun á þeirra fiski, en ekki gott að lagfæra það, þegar engin sjerstök lög eða reglur voru til að fara eftir um vöndun eða mat á þessum fiski sem verslunarvöru.

Fiskimenn eru líka af þeirri ástæðu óragir á að spara salt og annað, og yfir höfuð óvanda svo fiskinn, að til vandræða horfir. Það hefir líka í sambandi við þessa grein útgerðarinnar tekist upp annað verslunarlag. Menn kaupa fiskinn nú í svo að segja hvaða ásigkomulagi, sem hann er, nýsaltaðan, ósaltaðan, eða fullsaltaðan, og er það bæði kaupanda og seljanda óhagkvæmt, þar sem verðmætið verður ekki metið eftir neinum vissum reglum. Í þessu tilfelli er verðið á óverkaða fiskinum reiknað eftir verðinu á fullverkuðum fiski, og er augljóst, hve hæpið það er. En úr þessum misbresti þarf að bæta, og einmitt í þá átt ganga þessi lagafyrirmæli, sem hjer er farið fram á, að sett verði í lögin um fiskimat.

Síðustu árin af stríðstímanum var sjerstaklega farið að brydda á þessari óvöndun. Var það sameiginlegt með kaupmönnum, útgerðarmönnum og fiskimönnum, öllum jafnt. 1917 gerði stjórn landsins samning um sölu á afurðum landsins, og verðið var fremur lágt. Menn vissu, að fiskur, sem fara átti til Bretlands, var ekki metinn eftir sömu reglum og fiskur sá, er fara átti til Miðjarðarhafsins. Að minsta kosti höfðu Bretar ekki gert það að skilyrði, að hann væri metinn eftir Spánarreglunum. Kaupmenn fóru þá að spara saltið og ýmislegt annað og notuðu sjer þetta, og fór því fiskurinn smátt og smátt versnandi. Þessu er ekki enn búið að kippa í lag, og býst jeg við, að það liði enn nokkur tími áður en full bót er ráðin á því.

Því verður tæpast mótmælt, að um ófyrirsjáanlegan tíma verður fiskurinn einhver dýrasta framleiðsluvara okkar, og er því brýn nauðsyn á því að geta staðið framarlega í samkepninni á markaðinum, og framleiða ekki nema 1. flokks vöru. Okkur er það því meiri nauðsyn vegna þess, að þær þjóðir, er keppa við oss á markaðinum, geta framleitt ódýrara, og þurfum við því að geta krafist hærra verðs, en til þess þarf varan sem sagt að vera 1. flokks. Það er því miður sannreynd, og liggja að henni ýmsar óviðráðanlegar orsakir, að fiskiframleiðsla okkar er einhver sú dýrasta, sem á markaðinn kemur, og því frekar er ástæða til að vanda hana, enda eini vegurinn til farsællar samkepni.

Jeg skal svo ekki á þessu stigi málsins fjölyrða um þetta, en mun við 2. umr. gera nánari grein fyrir því. Jeg skal aðeins geta þess, að frv. er undirbúið og fram komið í samráði við yfirfiskimatsmennina í Reykjavík og á Ísafirði. Þeir álíta brýna nauðsyn til þessara breytinga, og að agnúunum verði ekki kipt í lag, nema þessi grundvöllur verði lagður undir fiskimatið. Vildi jeg svo leggja til, að málinu verði vísað til sjávarútvegsnefndar.